Línudans á lögsögumörkum Íslands

Miðvikudagur 16. apríl 2003.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, fór í eftirlitsflug yfir úthafskarfamiðin á Reykjaneshrygg í dag.  Þar hefur erlendum skipum fjölgað talsvert frá því sl. föstudag er síðast var farið í eftirlitsflug yfir svæðið.  Í dag voru þar við veiðar alls 29 erlend skip og flest á línudansi á lögsögumörkum Íslands.  Þessu úthafsveiðisvæði er stjórnað af Norð-austur Atlantshafs fiskveiðinefndinni (NEAFC) en aðildarríki eru ásamt Íslendingum, Færeyingar, Grænlendingar, Norðmenn, Rússar, Pólverjar og Evrópusambandsþjóðirnar.

Athygli vakti að af þeim 29 skipum sem voru við veiðar í dag voru 13 skip frá þjóðum sem ekki eiga aðild að fiskveiðinefndinni og taka þar af leiðandi enga ábyrgð á fiskveiðistjórnun á svæðinu.  M.a. voru þar skip frá Belise, Lettlandi, Litháen og Eistlandi. Fiskveiðinefndin hefur úthlutað þessum þjóðum 1200 tonna úthafskarfakvóta árlega en í fyrra fóru þau langt fram yfir þau mörk og er talið að þau hafi veitt alls 30.000 tonn.

Nú sem stendur eru fjórir íslenskir togarar að veiðum á svæðinu en skv. samningum aðildarríkja Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndinnar ber Íslendingum að senda eftirlitsskip þangað ef íslensk skip að veiðum verða fleiri en 10 talsins.  Íslendingar hafa heimild til að veiða alls 55 þúsund tonn af úthafskarfa á stjórnunarsvæði Fiskveiðinefndarinnar.

Myndirnar tók Auðunn F. Kristinsson stýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar af erlendum karfaveiðiskipum 11. apríl sl. er farið var í eftirlitsflug yfir miðin á Reykjaneshrygg.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands