Virk sprengja úr sprengjuvörpu fannst á fyrrum skotæfingasvæði Varnarliðsins

Mánudagur 14. apríl 2003.

 

Virka sprengjan sem fannst á Vogaheiði á Reykjanesi föstudaginn 11. apríl sl. var bandarísk M56 sprengja úr sprengjuvörpu og innihélt 1.75 kíló af TNT. 

 

Samkvæmt upplýsingum sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar voru slíkar sprengjur gerðar til að springa í lofti eða með snertingu við hart yfirborð og var drægni þeirra allt að 850 metrar.  Slík vopn voru gjarnan notuð af bandarískum landgönguliðum á sjötta áratug síðustu aldar og á meðan Víetnamstríðið stóð yfir.  Vopn svipaðrar gerðar eru notuð enn þann dag í dag. 

 

Varnarliðið notaði svæðið þar sem sprengjan fannst til skotæfinga frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar fram á miðjan sjötta áratug síðustu aldar og nær það yfir 15 ferkílómetra á milli Vogaheiði og Fagradalsfjalls.  Þar voru æfingar með mismunandi vopn, allt að 105 mm. sprengjukúlur.  Síðan svæðinu var lokað hefur Varnarliðið gert tilraunir til að hreinsa það. 

 

Árið 1986 yfirborðsskoðaði og og hreinsaði Varnarliðið hluta svæðisins í samstarfi við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar.  Þá fundust 600 virkar sprengjur.  Með stuðningi utanríkisráðuneytisins voru sett upp varúðarskilti en flest þeirra hafa því miður horfið og er mjög brýnt að endurnýja þau.

 

Síðan 1986 hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar gert nokkrar rannsóknir á svæðinu og nýlega hófu sprengjusérfræðingar hreinsun við Snorrastaðatjarnir.  Sérstök tæki eru notuð við leit, bæði í jarðvegi og undir vatnsyfirborði tjarnanna.  Þetta ferli tekur tíma og þrátt fyrir að sprengjudeildin beiti bestu tækni og tækjum sem fáanleg eru til að leita og hreinsa svæðið er alltaf hætta á að virkar sprengjur leynist þar.

 

Mikilvægt er að setja upp skilti sem vara fólk við því að hættulegt er að snerta eða hreyfa við slíkum hlutum og vonir standa til að það verði gert fljótlega.

 

Sjá meðfylgjandi myndir af sprengjunni og gígnum sem myndaðist eftir að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar höfðu eytt henni.

 

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands