Varðskip Landhelgisgæslunnar á leið til bjargar norsku selveiðiskipi

Þriðjudagur 8. apríl 2003.

 

Varðskip Landhelgisgæslunnar er nú á leið til bjargar norska selveiðiskipinu Polarsyssel sem er fast í ís 160 sjómílur vestnorðvestur af Ísafjarðardjúpi.  Mikill leki er kominn að skipinu en dælur hafa undan.

 

Tillkynning barst frá loftskeytastöðinni í Reykjavík kl. 14:26 um að leki væri kominn að norska selveiðiskipinu Polarsyssel sem statt er tæpar 160 sjómílur vestnorðvestur af Ísafjarðardjúpi.  Skipið var þá fast í ís og óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.  Annað norskt selveiðiskip, Polarfangst, var statt skammt undan.  Um borð í Polarsyssel er 15 manna áhöfn.  Loftskeytastöðin í Reykjavík sendi út tilkynningu til nærstaddra skipa um að aðstoðar væri þörf. 

 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði strax samband við skipstjóra Polarfangst sem var með dælur tilbúnar og gerði ráð fyrir að vera hjá Polarsyssel 25 mínútum síðar.  Taldi hann eftir samtal við skipstjóra Polarsyssel að um mikinn leka væri að ræða. 

 

Um kl. 15:45 var skipið Polarfangst komið að Polarsyssel.  Dælur Polarsyssel ásamt aukadælum úr Polarfangst virtust þá hafa undan lekanum. Talið var að skipið ætti 500 metra ófarna af þykkum ís þar til komið væri á frían sjó.  Ætlaði áhöfn Polarfangst að gera tilraun til að draga Polarsyssel út úr ísnum. 

 

Samkvæmt upplýsingum frá Polarsyssel kl. 17:50 er aftanverður skrokkur skipsins talsvert skemmdur.  Stýri er fast í bakborða og leki eykst verulega þegar skrúfu er kúplað inn.  Dælur ráða við lekann á meðan skrúfa snýst ekki.  Ekki er mikill sjór í aðalvélarrúmi og því virka dælur og rafalar.  Eins og staðan er nú telur áhöfn Polarsyssel sig ekki í verulegri hættu stadda og ætlar að vera áfram um borð.

 

Polarfangst á í vandræðum með aðalvél og getur því ekki aðstoðað Polarsyssel út úr ísnum.  Varðskip Landhelgisgæslunnar er á leið á staðinn og er reiknað með að það komi að Polarsyssel um þrjúleytið á morgun.  Verið er að kanna hvort önnur skip séu á svæðinu sem geti komið fyrr til bjargar.

 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi

Landhelgisgæslu Íslands