Svissneska ríkissjónvarpið í heimsókn hjá Landhelgisgæslunni

Föstudagur 21. mars 2003.

Svissneska ríkissjónvarpið hefur verið í sambandi við Landhelgisgæsluna undanfarið vegna kvikmyndunar á sjónvarpsþætti um Ísland. Höfðu sjónvarpsmennirnir sérstakan áhuga á að kynna sér björgunarstörf Landhelgisgæslunnar. 

Umfjöllunin um Ísland verður í þættinum Rondo Mondo í sumar.  Þættirnir eru sýndir á besta tíma á laugardagskvöldum og er áhorf mikið.  Að þessu sinni verður ein og hálf klukkustund helguð Íslandi.  Svissneska sjónvarpsstjarnan Dani Fohrler tekur viðtöl við ýmsa aðila hér á landi, m.a. tók hann viðtal við Halldór Nellett skipherra hjá Landhelgisgæslunni um borð í varðskipinu Óðni.  Í dag tekur hann viðtöl við Þórólf Árnason borgarstjóra Reykjavíkur og söngkonuna Emilíönu Torrini.

Svissneska sjónvarpsfólkið lét vel af dvölinni á Íslandi.  Þau fóru m.a. til Hveragerðis, að Gullfossi og Geysi, gistu að Skógum og héldu sem leið lá til Hafnar í Hornafirði með viðkomu í Vík, Jökulsárlóni og fleiri áhugaverðum stöðum.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands

Mynd/Svissneska Ríkissjónvarpið:  Halldór Nellett skipherra og Dani Forhler sjónvarpsstjarna leggja á ráðin áður en viðtalið er tekið.

Mynd/Svissneska Ríkissjónvarpið: Halldór Nellett skipherra, Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi, Dani Forhler sjónvarpsstjarna sem tók viðtalið og Chris Egger framkvæmdastjóri þáttanna Rondo Mondo.  Þátturinn um Ísland verður sýndur 7. júní í sumar.