Tveir menn björguðust er Draupni GK-39 hvolfdi 9 sjómílur frá Hópsnesi

Miðvikudagur 26. febrúar 2003.

Flugstjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:33 og tilkynnti að flugvélar hefðu numið neyðarsendingar yfir Suð-Vesturlandi.  Stuttu síðar hafði Tilkynningarskylda íslenskra skipa samband og lét vita að mótorbátsins Draupnis GK-39 væri saknað en sjálfvirkar tilkynningar voru hættar að berast frá honum.  Talið var að báturinn hafi síðast verið staddur 9 sjómílur suð-suð-austur af Hópsnesi. 

Áhöfn TF-LÍF var kölluð út kl. 12:41 og fór hún í loftið 17 mín. síðar, kl. 12:58.  Eftir stundarfjórðung fann hún gúmmíbjörgunarbát með tveimur mönnum í á svæðinu.  Mótorbáturinn Mummi GK-121 var staddur 100 metra frá gúmmíbjörgunarbátnum og var ákveðið að láta skipbrotsmennina fara um borð í Mumma þar sem það var talið öruggara en að hífa mennina um borð í þyrluna.  TF-LÍF var í hangflugi yfir staðnum á meðan kannað var hvort skipbrotsmennirnir væru heilir á húfi og hélt síðan til Reykjavíkur þar sem hún lenti kl. 13:43. 

Mótorbáturinn Mummi sigldi til Grindavíkur með mennina tvo og björgunarbátur Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Oddur V. Gíslason, náði að draga Draupni GK-39 til hafnar. Hann hafði marað á hvolfi í sjónum skammt frá staðnum þar sem gúmmíbjörgunarbáturinn fannst.

Draupnir er 8 tonna plastbátur, smíðaður 1977 og gerður út frá Grindavík. 

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands