Flutt með þyrlu eftir fall í klettum

Fimmtudagur 5. september 2002.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning frá lögreglunni í Borgarnesi kl. 12:30 í dag um að stúlka hefði fallið í klettum í Hvalfirði og slasast en upplýsingar um staðsetningu voru misvísandi.  Óskað var eftir að þyrla yrði í viðbragðsstöðu.  Þyrluáhöfn var gert viðvart en beiðnin var afturkölluð af Neyðarlínunni stundarfjórðungi síðar. 

Um eittleytið hafði Neyðarlínan samband að nýju og var nú aftur óskað eftir þyrlu í viðbragðsstöðu. Um kl. 13:14 barst síðan beiðni frá lögreglunni um að þyrlan sækti hina slösuðu austan við Botnsskála í Hvalfirði.  TF-SIF fór í loftið kl. 13:38 og var komin á slysstað kl. 13:55. 

Byrjað var á því að flytja sex björgunarsveitarmenn upp á fjall þar sem þrír unglingar voru í sjálfheldu en björgunarsveitarmennirnir sáu um að koma þeim á öruggan stað.  Síðan var slasaða stúlkan hífð upp úr fjallshlíðinni en þá höfðu björgunarsveitarmenn og sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins búið um hana á svokölluðu hryggspjaldi.  Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 14:51.

Dagmar Sigurðardóttir upplýsingafulltrúi
Landhelgisgæslu Íslands