Starfsmaður Landhelgisgæslunnar til starfa hjá FAO í Róm - fjareftirlit með fiskiskipum notað til að auðvelda eftirlit og björgunarstörf

Innan fiskveiðilögsagna ríkja og á úthafsveiðisvæðum fer eftirlit með fiskveiðum í æ ríkari mæli fram með fjareftirliti og auðveldar það til muna skipulag eftirlits frá sjó og úr lofti. Veiðiskipin eru búin sjálfvirku senditæki sem sendir boð um gervihnött til eftirlitsstöðvar í heimalandinu og þannig er hægt að fylgjast náið með staðsetningu skipsins. Fjareftirlitið eykur einnig möguleika á björgun skipa enda er með þeim hætti hægt að staðsetja skip í sjávarháska og auðvelda þannig björgunarskipi, öðrum nærstöddum skipum eða björgunarloftfari að nálgast það. Fjölþjóðlegar fiskveiðinefndir hafa meðal annars nýtt sér þessa tækni til að hafa eftirlit með veiðum á úthafsveiðisvæðum. Fjareftirlitið kemur ekki í stað virks eftirlits á sjó og úr lofti en gerir það mun markvissara.

Starfsmaður Landhelgisgæslunnar, Gylfi Geirsson, heldur á morgun til Rómar á Ítalíu þar sem hann mun starfa hjá Matvæla- og Landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) næstu mánuði við verkefni tengd fjareftirliti og rafrænum afladagbókum. Verkefnið er unnið í samvinnu við sjávarútvegs- og utanríkisráðuneytið.  Matvæla- og Landbúnaðarstofnunin óskaði eftir því við íslensk stjórnvöld að Ísland sendi fjareftirlitssérfræðing til starfa hjá stofnuninni en á alþjóðavettvangi hefur Ísland getið sér orð fyrir að vera í fremstu röð á þessu sviði í heiminum.

 

Gylfi Geirsson hóf störf sem loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni árið 1971 og hefur gegnt fjölmörgum og ábyrgðarstörfum þar m.a.  sem forstöðumaður fjarskipta- og upplýsingatæknisviðs frá 1995 og fjareftirlits og fjarskiptaþróunar frá 2005. Hann hefur verið fulltrúi Íslands á fundum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) og Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðisamtakanna (NAFO) sl. 12 ár í umboði sjávarútvegsráðuneytisins og er núverandi formaður tækninefndar NEAFC.

 Gylfi_FAO_Rom_mars_2005

Á meðfylgjandi mynd má sjá Gylfa Geirsson að kynna fjareftirlit á ráðstefnu FAO í Róm árið 2005.