Minningarathöfn um borð í varðskipinu Ægi vegna látins vinar og félaga - 10 ár liðin frá strandi Vikartinds

Mánudagur 5. mars 2007

Þess var minnst í morgun um borð í varðskipinu Ægi að 10 ár eru liðin frá því hörmulega slysi er Elías Örn Kristjánsson bátsmaður og kafari lést við skyldustörf um borð í varðskipinu er þess var freistað að bjarga flutningaskipinu Vikartindi sem var vélarvana undan Háfsfjöru.

Nánustu aðstandendur Elíasar voru við athöfnina í morgun og var þeim afhent bréf til staðfestingar á því að nýr legsteinn á gröf Elíasar verður keyptur fyrir söfnunarfé sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar og fleiri hafa gefið til minningar um Elías.

Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi sagði nokkur orð af þessu tilefni. Þar kom meðal annars fram:

Ekki er meiningin að fara að rekja hér þá atburðarás sem leiddi til þessa hörmulega slyss. Það hafði hins vegar ýmsa eftirmála sem vert er að minnast á.  Strax um haustið var ráðist í að loka varðskipunum Ægi og Tý að aftan og var það mikil breyting til frekara öryggis fyrir þá sem þar starfa við björgun skipa í vondum veðrum, ásamt ýmsum öðrum breytingum.  Árið 2001 voru sett tvö stýri á Ægi og Tý eftir að Rannsóknarnefnd sjóslysa hafði gefið út skýrslu um slysið.  Á árunum 2005-2006 var breytingunum síðan lokið þegar sett voru öflugri dráttarspil ásamt fleiri breytingum er lúta að aðbúnaði áhafnanna á skipunum. Í dag teljum við okkur því hafa tvö góð skip í þjónustu okkar.

Halldór Gunnlaugsson skipherra á varðskipinu Ægi bauð aðstandendum að skoða varðskipið og sýndi þeim þær breytingar sem orðið hafa til batnaðar frá því að slysið varð.  Síðan var þeim boðið í  kaffi í matsal skipsins ásamt forstjóra og áhöfn skipsins.

Meðfylgjandi myndir tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

IMG_0516
Fjölskylda Elíasar Arnar Kristjánssonar við minningarathöfn um borð í varðskipinu Ægi.

Elias_Orn_Minning2
Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi sagði nokkur orð.


Elias_Orn_minning3
Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður afhenti ekkju Elíasar, Kristínu, skjal þar sem staðfest var að nýr legsteinn til minningar um Elías yrði keyptur fyrir söfnunarfé.

Elias_Orn_minning4
Fjölskylda Elíasar í brúnni um borð í varðskipinu Ægi ásamt yfirmönnum.