Eyddu sprengju í Vestmannaeyjum

  • sprengja Dala-Rafn VE 290307

Föstudagur 30. mars 2007.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fóru í gær með þyrlu til Vestmannaeyja og eyddu sprengju sem hafði komið í net togskipsins Dala-Rafns frá Vestmannaeyjum.

Skipstjóri togskipsins Dala-Rafn VE hafði samband við sprengjusveit Landhelgisgæslunnar í fyrradag og sagðist vera með tóma sprengiefnistunnu úr tundurdufli. Hann spurði hvort stafaði af þessu einhver hætta en honum sýndist að hvellhettan væri á sínum stað. Skipstjórinn sendi jafnframt myndir af duflinu og kom þá í ljós að hann var með djúpsprengju sem notaðar voru til að granda kafbátum í seinni heimstyrjöldinni. Aðalhleðslan var farin en kveikibúnaðurinn var á sínum stað og hugsanlega forsprengjan en það var erfitt að sjá það á myndum.

Skipstjóranum var leiðbeint um hvernig ganga ætti frá sprengjunni og hélt skipið svo til Vestmannaeyja. Þar beið skipið fyrir utan þar til sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar komu til Vestmannaeyja með þyrlu snemma í morgun. Skipið kom þá til hafnar og við nánari athugun sprengjusérfræðinga kom í ljós að forsprengjan var á sínum stað og tókst að gera hana óvirka um borð í skipinu.  Eftir það var hægt að flytja hana til eyðingar.

Hafa ber í huga að djúpsprengja þarf ekkert rafmagn til springa. Hún spennist upp um leið og hún sekkur og þegar ákveðnum þrýstingi er náð hleypir hún af og sprengir hvellhettu sem sprengir forsprengjuna sem síðan sprengir aðal-sprengjuhleðsluna.  Í þessu tilfelli var hún horfin. Þetta dæmi sýnir að aldrei er of varlega farið með gamla hluti sem berast frá sjónum að landi.

Þrátt fyrir aldur sprengjunnar kom í ljós, þegar forsprengjan var sprengd ásamt hvellhettunni, að hvort tveggja var í góðu ástandi.

Ágúst Magnússon sprengjusérfræðingur tók meðfylgjandi myndir.

Sigurður Ásgrímsson
sprengjusérfræðingur
sprengja Dala-Rafn VE 290307
Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur að störfum um borð í Dala Rafni VE.

Sprengja_DalaRafn_VE_0307
Leifarnar af tunnunni.

sprengja_Dala_Rafn_VE_290307
Hvelhettan og byssan.