Gaman að vinna hjá Gæslunni - Starfsmaður í 25 ár og bátsmaður í 10 ár

  • Gudmundur_St._Valdimarsson_2007

11. apríl 2007.
Það virðist vera gott að starfa hjá Gæslunni ef marka má litla starfsmannaveltu og háan starfsaldur margra starfsmanna. Dæmi eru um starfsmenn sem hafa verið hjá Gæslunni allan sinn starfsaldur og hafa starfað þar í yfir 40 ár.

Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður er einn af þeim sem hefur verið lengi hjá Gæslunni eða í 25 ár þann 7. apríl síðastliðinn.

Fyrsta starf Guðmundar var í eldhúsinu á varðskipinu Ægi með þeim Ólafi B. Sigurðssyni bryta, Sigurjóni Jónssyni (Góa) matsveini og Sigurði R. Karlssyni vikadreng. Um vorið sama ár fór hann í eldhúsið á varðskipinu Óðni og var þar fram á haustið er viðvaningsstaða bauðst á Ægi með Gísla Þórðarsyni bátsmanni.

Sumarið 1983 fékk Guðmundur hásetapláss á Óðni hjá Sófusi Alexandersyni bátsmanni. Á Óðni sigldi hann fram á vorið 1990 en þá fór hann í stuttan tíma í millilandasiglingar á norska flutningaskipinu m/s Jarli.

Vorið 1991 fór Guðmundur svo um borð í v/s Tý sem háseti hjá Steinari Clausen bátsmanni, með smá útúrdúr 1992 að hann fór á m/s Hofsjökul.  Á Tý var hann fram á vorið 1997. Frá 1988 leysti hann svo stundum af sem bátsmaður.

Þann  9. apríl 1997 tók Guðmundur svo við bátsmannstöðunni á Ægi og hefur verið þar síðan eða í 10 ár samfellt, lengst allra bátsmanna sem þar hafa verið. Hann hefur líka prófað önnur störf hjá Landhelgisgæslunni.  Veturinn 1985 var hann í skemmunni í Ánanausti en þar réði ríkjum Garðar Pálsson skipherra og sumarið 1991 starfaði hann í flugskýli Gæslunnar undir stjórn Guðmundar Ingimarssonar yfirflugvirkja. Frá 1989 starfaði Guðmundur sem kafari og kafaði 240 kafanir á þeim 13 árum sem hann gegndi því starfi auk annarra starfa.

Guðmundur er mikill áhugamaður um ljósmyndun og hefur tekið þúsundir mynda í starfi sínu hjá Landhelgisgæslunni. Sumar þeirra hafa birst í fjölmiðlum og hann hefur einnig hlotið viðurkenningu fyrir ljósmynd af varðskipinu Ægi í ljósmyndasamkeppni sjómanna.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Gudmundur_St._Valdimarsson_2007
Guðmundur St. Valdimarsson á léttbáti Ægis. Myndina tók Sævar Már Magnússon háseti á varðskipinu Ægi.

Ægir á gamlársdag - verðlaunamynd
Verðlaunamynd Guðmundar.  Mynd af varðskipinu Ægi í höfninni á Þingeyri á gamlársdag 2003.  Myndin var í fjórða sæti í ljósmyndakeppni sjómanna og var valin í Norðurlandakeppnina.