Leitað að skipstjóra frá Vopnafirði - bátur hans fannst mannlaus

Fimmtudagur 12. apríl 2007.

Þyrla og varðskip Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir frá Vopnafirði og nágrenni hafa leitað í nótt að trillusjómanni frá Vopnafirði og stendur leit enn yfir þegar fréttatilkynning er send út kl. 8. Bátur hans fannst mannlaus uppi í fjöru við norðanverðan Kollumúla í gærkvöldi.  Ekkert neyðarkall hafði borist frá bátnum og reglulegar sendingar bárust frá honum í sjálfvirku tilkynningarskyldunni.

Leit hófst eftir að skipstjórar á svæðinu fóru að spyrjast fyrir um bátinn. Varðstjórar Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga reyndu árangurslaust að hringja í hann og kalla upp á neyðarrás 16 og höfðu einnig samband við hafnarvörðinn á Vopnarfirði og báðu hann að kalla bátinn upp í talstöð. Ekkert svar barst frá bátnum.  Í framhaldi af því var ákveðið að kalla út björgunarsveitir frá Vopnafirði. 

Björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson frá Vopnafirði var komið að bátnum kl. 23 og kom þá í ljós að hann hafði rekið upp í fjöru og sást ekkert lífsmark í bátnum. Hvasst var á staðnum, vestan suðvestan 18 m. á sek., og ströndin stórgrýtt svo ekki var strax hægt að ganga úr skugga um hvort skipstjórinn væri í bátnum.
 

Í framhaldinu fóru þyrla og varðskip Landhelgisgæslunnar til leitar.  Áhöfn björgunarskipsins Sveinbjörns Sveinssonar tókst svo að komast að bátnum í fjörunni rétt eftir miðnætti og kom þá í ljós að hann var mannlaus. Varðskipsmenn náðu bátnum á flot í nótt og var leki í lúkarnum en þeim tókst að koma dælu fyrir í honum. Tók björgunarskipið Hafbjörg hann í tog.

Þyrla og varðskip Landhelgisgæslunnar eru enn við leit fyrir austan og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar væntanleg þangað fyrir hádegið.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.