Áhöfn Týs í góðu samstarfi við björgunarsveitir á Austurlandi

  • Tysarar_med_bjorgunarsveitarmonnum

Miðvikudagur 2. maí 2007.

Í síðustu ferð varðskipsins Týs hafði áhöfnin mikið og gott samstarf við björgunarsveitir Landsbjargar.

Fyrst má telja björgunaraðgerðir og leit í Vopnafirði þar sem samvinna áhafnar varðskipsins og björgunarsveita var með ágætum.

Þegar varðskipið var úti á Norðfirði komu félagar úr björgunarsveitinni í Neskaupstað í heimsókn. Fyrst yngri félagar og degi síðar eldri félagar. Fengu þeir leiðsögn um skipið.

Á sumardaginn fyrsta þegar varðskipið var úti fyrir Vík í Mýrdal komu boð frá björgunarsveitinni Víkverja um að varðskipsmenn væru velkomnir í sumarkaffi og vöfflur hjá sveitinni. Skipverjar af varðskipinu fóru á Zodiac léttbáti í land og þáðu gott boð.

Á leiðinni til baka varð bilun í mótor léttbátsins þegar hann var rétt að komast í gegn um brimgarðinn. Ekki vildi betur til en svo að bátnum hvolfdi þegar hann missti stjórnhæfni en skipverjar björguðust í land. Aðrir skipverjar á Tý urðu að koma á Springer léttbát frá varðskipinu og draga bilaða bátinn úr fjörunni.

Úr þessu varð góð æfing og fór allt á besta veg. Blíðuveður var á staðnum. Það minnir líka á að það verður að fara varlega þótt veður sé gott því að sjólag getur verið varasamt þrátt fyrir það. Víst er að alltaf skal hafa aðgát þegar verið er að fjörulenda og eins þegar siglt er frá landi eftir slíkar lendingar. Góðu heilli voru viðbrögð rétt og má þakka það æfingum og fræðslu í brimlendingum sem eru liður í þjálfun áhafna varðskipanna.

Einar Örn Einarsson
stýrimaður

Týr - myndir apríl 2007
Rögnvaldur K. Úlfarsson háseti á TÝ, ásamt ungliðum úr björgunarsveitinni í Neskaupsstað .

Týr - myndir apríl 2007
Frá vinstri Rögnvaldur K Úlfarsson háseti, Ásdís Einarsdóttir háseti, Einar Örn Einarsson 2. stýrimaður, Jóhann Eyfeld Ferdinandsson háseti og Teitur Gunnarsson háseti í heimsókn hjá Víkverjum.

Tysarar_med_bjorgunarsveitarmonnum

Skipverjarnir af TÝ með gestgjöfum í björgunarsveit Víkverja.

Týr - myndir apríl 2007

Varðskipið Týr úti fyrir Vík í Mýrdal.

Týr - myndir apríl 2007
Úti fyrir Vík , Reynisdrangar í baksýn. Teitur, Rögnvaldur og Ásdís.

Týr - myndir apríl 2007
Einar Örn, Jóhann og Teitur. Á leið til Víkur

Týr - myndir apríl 2007
Eftir vel heppnaða lendingu í Vík.

Týr léttbátar

Léttbátur og áhöfn hans í forgrunni, Springer léttbátur útifyrir, varðskipið Týr í bakgrunni. Mynd Harpa Jónsdóttir.