Þór kom súrálsskipi til aðstoðar

Áhöfnin á Þór var kölluð út frá Dalvík.

  • IMG_5654
3.6.2024 Kl: 12:47

Áhöfnin á varðskipinu Þór gerði ráð fyrir að verja sjómannadeginum á Dalvík en störf Landhelgisgæslunnar eru þannig að áætlanir breytast hratt.


Á ellefta tímanum í gærmorgun óskaði súrálsskip í Reyðarfirði eftir aðstoð vegna vélarbilunar. Flutningaskipið var við akkeri skammt frá höfninni en vegna versnandi veðurs lá á að koma skipinu að bryggju. 

Varðskipið hélt með hraði á vettvang og var komið til Reyðarfjarðar laust fyrir ellefu í gærkvöld. Enginn dráttarbátur, sem var nægjanlega öflugur, var tiltækur í nágrenninu til að koma skipinu að bryggju og af þeim sökum var ákaflega mikilvægt að varðskipið yrði komið til Reyðarfjarðar fyrir miðnætti. Flutningaskipið var um 36 þúsund tonn og 20 voru í áhöfn þess.

Á tólfta tímanum var dráttartaug komið á milli skipanna og rúmri klukkustund síðar voru skipin komin að bryggju. Dráttarbáturinn Vöttur tók einnig þátt í aðgerðinni sem gekk sérlega vel. Þegar verkefninu var lokið hélt varðskipið Þór sinni árlegu vitaferð áfram.