Þyrlusveit hífði kaldan og hrakinn göngumann um borð

Flugmenn lítillar flugvélar komu auga á tvö ljósmerki milli Keilis og Kistufells.

  • 6W7A2354

20.12.2023 Kl: 11:45

Á níunda tímanum í gærkvöld var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar kölluð út ásamt björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar til leitar á milli Keilis og Kistufells í kjölfar þess að flugmenn lítillar flugvélar komu auga á SOS neyðarljósmerki á svæðinu.


Flugmennirnir létu flugturn í Reykjavík vita af neyðarmerkinu og í kjölfarið voru viðbragðsaðilar kallaðir út. Flugvélin hringsólaði yfir ljósmerkinu og gætti þess að missa ekki sjónar af því meðan beðið var eftir viðbragðsaðilum.


Upphaflega var talið að um tvo göngumenn væri að ræða vegna tveggja ljósmerkja sem sáust á staðnum. Þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir Reykjanesbrautina sáust ljósmerkin greinilega ásamt flugvélinni sem flaug þar yfir.


Flogið var beint að öðru ljósmerkinu sem reyndist vera göngumaður sem var einn á ferð og var hann hífður um borð í TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar. Maðurinn var orðinn kaldur og hrakinn eftir langa útiveru. Þegar í þyrluna var komið sagðist maðurinn vera einn á ferð og sagði hitt ljósmerkið vera frá búnaði hans sem væri þar skammt frá.


Sigmaður þyrlunnar tók búnaðinn saman og í kjölfarið var manninum flogið til Reykjavíkur.
Landhelgisgæslan vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til flugmannana fyrir hárrétt viðbrögð og gott samstarf.


Ljósmyndir: Finnur Snær Baldvinsson


6W7A2343Þyrlan beinir ljósum sínum að manninum. Myndin er tekin um borð í flugvélinni sem flaug yfir.


6W7A2354Sigmaður þyrlunnar fer niður til mannsins. Hann var í kjölfarið hífður um borð í þyrluna.