Fjölnota varðskip öflug björgunartæki til sjávar - Varðskipið Týr og norska varðskipið Harstad æfa saman á Faxaflóa

Föstudagur 5. júní 2009

Norska varðskipið Harstad, varðskipið Týr og þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF voru í dag við björgunaræfingar á Faxaflóa. Harstad er hér á landi í boði Landhelgisgæslunnar en skipið er nær systurskip íslenska varðskipsins Þórs sem er í smíðum í Chile. Harstad og Þór eru öflug björgunar- og dráttarskip og var afar gagnlegt fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem og starfsmenn ýmissa innlendra samstarfsstofnana að fylgjast með hvernig búnaður varðskipsins starfar. Ekki fer á milli mála að varðskip eru þau björgunartæki sem öflugust eru til sjávar.

Tyr_Harstad_aefing1

Lagning mengunargirðingar

Æfingin var þrískipt. Hófst hún á mengunarvarnaæfingu þar sem hreinsuð var upp ímynduð olíumengun í hafinu. Sett var út mengunargirðing sem lokaði af flæði olíunnar. Varðskipið Týr tók við línu girðingarinnar og sigldi með hana í boga til að loka af hið mengaða svæði. Var þvínæst lagður út hreinsibúnaður sem dældi hinni ímynduðu olíu æfingarinnar í tanka sem eru um borð í skipinu. Æfingin gekk ágætlega og afar gagnlegt var að fylgjast með aðferðum sem notaðar eru við aðgerðirnar.

Tyr_Harstad_aefing2

Hreinsunarbúnaður dælir upp mengun.

Annar hluti æfingarinnar fólst í að þyrla Landhelgisgæslunnar kom á svæðið til leitar að björgunarbáti og tveimur skipverjum sem höfðu lent í sjónum. Þyrlan fann mennina og hífði þá upp í þyrluna, þvínæst voru skipverjar um borð í björgunarbátnum hífðir um borð og síðan flogið að varðskipinu Harstad þar sem mennirnir sigu um borð.

Síðasti hluti æfingarinnar fólst í að Harstad tók varðskipið Tý í tog. Átti Týr að vera vélarvana skip sem gerir aðgerðir talsvert flóknari. Er þá léttari línu komið yfir í skipið og síðan þyngri og öflugri lína látin fylgja í kjölfarið. Togkraftur varðskipsins Harstad er 110 tonn en togkraftur varðskipsins Þórs er 120 tonn eða rúmlega tvöfalt á við Tý sem er 55 tonn.

Tyr_Harstad_aefing3

TF-LÍF kemur að Harstad

Um 50 manns tóku þátt í æfingunum sem þóttu takast mjög vel og voru þær afar gagnlegar öllum þeim sem að komu.  Harstad verður í Reykjavík um sjómannadagshelgina og og verður til sýnis fyrir almenning á sjómannadaginn 7. júní frá kl. 13:30-17:00 en skipið liggur við Ægisgarð í gömlu höfninni. Um glæsilegt skip er að ræða sem gaman er að skoða og er almenningur hvattur til að nýta sér þetta einstaka tækifæri. Skipið mun einnig taka þátt í blæstri þokulúðra sem er liður í dagskrá Hátíðar Hafsins sem hefst á morgun, laugardag. Harstad heldur síðan úr höfn á mánudag.

Tyr_Harstad_aefing4

Sigmaður sígur um borð

Mjög mikilvægt er fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar að hitta kollega sína frá norsku strandgæslunni og æfa sameiginlega björgunaraðgerðir. Koma skipsins og æfingar þess með starfsmönnum og tækjum Landhelgisgæslunnar sýnir skýrt hve samstarf Landhelgisgæslunnar við sjóheri og strandgæslur á Norður-Atlantshafi og samstarfssamningar þar um hafa mikið gildi fyrir öryggi , björgun og eftirlit á því gríðarstóra hafsvæði sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á.

Tyr_Harstad_aefing5

Aðgerðum stjórnað úr brú Harstad

Heimsókn Harstad er einmitt liður í samstarfssamningi sem er í gildi milli Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar á sviði strandgæslu, öryggismála, leitar og björgunar sem undirritaður var í október 2008. Samkomulagið er á sviði sameiginlegra aðgerða vegna hugsanlegra mengunarslysa, fiskveiðieftirlits, skipta á skipaumferðarupplýsingum, leitar og björgunar á hafinu og ýmissa annara málefna er tengjast verkefnum á sviði strandgæslu. Nutu Íslendingar vissulega góðs af samstarfinu við hönnun og smíði Þórs, hins nýja fjölnota varðskips Landhelgisgæslunnar. Er samningurinn við Norðmenn sambærilegur þeim sem gerður var við Dani í apríl 2007.

Tyr_Harstad_aefing6

Varðskipið Týr kominn í tog

Harstad var afhent norsku strandgæslunni í janúar 2005, það er 3200 brúttótonn að þyngd, 83 metrar að lengd og 15 metra breitt. Mesti hraði eru 18,5 sml. Um borð er 40mm Bofors fallbyssa. Í áhöfn Harstad eru 18-21 maður.