Fréttayfirlit: september 2004 (Síða 2)

Landhelgisgæslan fær nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði - Varðskipið Týr flutti nýtt varðskýli til Reykjavíkurhafnar í dag

Miðvikudagur 8. september 2004. Varðskipið Týr flutti nýtt varðskýli Landhelgisgæslunnar frá Keflavíkurhöfn til Reykjavíkur í dag.  Landhelgisgæslan fær nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði þar sem varðskýlinu var komið fyrir. Undanfarin ár hefur verið rætt um að færa þurfi hafnaraðstöðu Landhelgisgæslunnar frá Ingólfsgarði því hún hefur ekki þótt henta nægilega vel fyrir varðskipin.  Eftir viðræður við Reykjavíkurhöfn bauð hafnarstjórinn Landhelgisgæslunni nýja hafnaraðstöðu á Faxagarði.  Í framhaldi af því var farið að kanna möguleika á að kaupa nýtt varðskýli fyrir Landhelgisgæsluna því að gamla varðskýlið á Ingólfsgarði er komið til ára sinna og uppfyllir ekki lengur kröfur sem gerðar eru til vinnuaðstöðu.  Dómsmálaráðuneytið samþykkti í apríl á þessu ári að Landhelgisgæslan fjármagnaði nýtt varðskýli með fé úr Landhelgissjóði.  Í framhaldi af því var smíði varðskýlisins boðin út.  Tilboð voru opnuð í júní og var gengið til samninga við Vélsmiðjuna Eldafl sem átti lægsta tilboðið.  Varðskýlið var smíðað í Njarðvík og flutti varðskipið Týr það til Reykjavíkurhafnar í dag.  Vel gekk að koma því fyrir á varanlegan stað.  Fyrirhugað er að varðskýlið og nýja hafnaraðstaðan verði tekin í notkun um mánaðarmótin september-október næstkomandi.  Hafrannsóknarstofnun hefur einnig hafnaraðstöðu fyrir skip sín á Faxagarði og mun samnýta varðskýlið með Landhelgisgæslunni. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd Steinar Clausen:  Varðskipið Týr á leið út úr Keflavíkurhöfn með varðskýlið á dekkinu. Mynd Steinar Clausen: Thorben Lund yfirstýrimaður og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra við komuna til Reykjavíkur. Mynd DS: Verið að gera húsið klárt fyrir flutning. Mynd DS: Vel gekk að hífa varðskýlið frá borði. Mynd DS: Varðskýlið ,,að lenda" á bryggjunni og Steinar Clausen hinn ánægðasti með nýja vinnustaðinn sinn. Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri fylgist með.

Nordic Saga Cup 2004

Þriðjudagur 7. september 2004.   Tvö dönsk varðskip voru í Reykjavíkurhöfn um helgina.  Af því tilefni var skipulagt íþróttamót þar sem lið Landhelgisgæslunnar atti kappi við lið varðskipsins Tritons og varðskipsins Vædderen.    Íþróttamótið fékk heitið Nordic Saga Cup 2004 og var haldið á Leiknisvellinum í Breiðholti á laugardeginum.  Fótboltakeppni hófst kl. 10:30 um morguninn.  Fyrst kepptu lið Tritons og Vædderen og sigraði lið Tritons 3-1.  Þar næst keppti lið Landhelgisgæslunnar við lið Tritons og sigraði Landhelgisgæslan 4-0.  Ekki gekk eins vel gegn Vædderen en þar tapaði Landhelgisgæslan 3-2.  Dómarinn, úr liði Tritons, dæmdi víti á Landhelgisgæsluna á síðustu mínútunni og var í herbúðum Landhelgisgæslunnar talað um dómarahneyksli, en allt þó í góðlátlegu gríni.  Markaskorarar Landhelgisgæslunnar voru Björn Brekkan Björnsson flugmaður með tvö mörk, Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Magnús Örn Einarsson stýrimaður, Óskar Á. Skúlason og Árni Jóhannesson með eitt mark.   Er fótboltakeppnin var yfirstaðin var farið í reiptog og stóð lið Tritons uppi sem sigurvegari. Að keppni lokinni bauð áhöfn Tritons hinum liðunum og áhangendum þeirra um borð í Triton þar sem boðið var upp á léttar veitingar.  Þar fór fram verðlaunaafhending þar sem gestgjafarnir fengu glæsilegan farandbikar fyrir góða frammistöðu í reiptoginu en lið Vædderen fékk verðlaunaskjöld til eignar fyrir sigur á mótinu í heild.  Lið Landhelgisgæslunnar varð því að láta sér nægja að gleðjast yfir góðri frammistöðu í fótboltakeppninni en þar skoraði Landhelgisgæslan flest mörk þótt stigatalan gæfi það ekki til kynna.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Aðalmarkaskorari Landhelgisgæslunnar, Björn Brekkan Björnsson flugmaður, hefur sig til flugs.  Hann skoraði tvö mörk gegn Triton en gat því miður ekki verið lengi inni gegn Vædderen vegna meiðsla. Halldór Nellett skipherra hreinsar frá markinu með því að taka undir sig stökk og skalla boltann.  Hann sýndi snilldartakta í boltanum og áhorfendur sáu ekki betur en að hann færi heljarstökk í viðureign sinni við Triton-liðið. Magnús fjármálastjóri einbeittur í sókninni og Halldór Nellett skipherra á næstu grösum. Óskar Á. Skúlason háseti í kröppum dansi að hreinsa frá markinu. Hann skoraði eitt mark af 6. Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri mættur til að horfa á sína menn í boltanum, ánægður með markaskorarann Björn Brekkan Björnsson flugmann. Landhelgisgæslumenn efla liðsandann með sigurhring og stríðsöskri fyrir leik. Spenntir áhorfendur og hluti liðsins á hliðarlínunni, þ.á.m. markaskorararnir Björn og Magnús Örn Einarsson stýrimaður. Hilmar Sigurðsson vélstjóri var í góðum gír í dómarahlutverkinu. Lið Landhelgisgæslunnar: Tómas Vilhjálmsson flugvirki, Halldór Nellett skipherra, Viggó M. Sigurðsson háseti/kafari, Marvin Ingólfsson háseti/kafari, Árni Jóhannesson afleysingamaður, Ragnar Georgsson ftr. í tæknideild, Róbert Örn Pétursson afleysingamaður, Sigurður Heiðar Wiium flugmaður, Óskar Á. Skúlason háseti/kafari, Magnús Gunnarsson fjármálastjóri, Magnús Örn Einarsson stýrimaður og Daníel Hjaltason flugvirki.  Þeir sem hafa heitið afleysingamenn voru "ráðnir" tímabundið yfir daginn vegna einstakra fótboltahæfileika. Keppnislið danska varðskipsins Triton. Keppnislið danska varðskipsins Vædderen fagnar í lok fótboltamótsins. Hér sést lið Vædderen taka vel á í reiptoginu. 

Northern Challenge 2004 fær góða dóma á heimasíðu norska sjóhersins

Þriðjudagur 7. september 2004.   Á heimasíðu norska sjóhersins er fjallað um fjölþjóðlega æfingu sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge 2004, sem Landhelgisgæslan stóð fyrir í samvinnu við Varnarliðið frá 30. ágúst – 3. september.  Þar er meðal annars viðtal við yfirmann sprengjueyðingarsveita norska sjóhersins, Morten A. Høvik og haft eftir honum að hann hafi ekki upplifað eins árangursríka æfingu á þessu sviði í fleiri ár. Sjá fréttina á slóðinni: http://www.mil.no/sjo/start/article.jhtml?articleID=82403   Í viðtali við Morten kemur m.a. fram að unnið hafi verið frá kl. 7 á morgnana og stundum fram á nótt.  Keppendum gafst lítið tóm til að kynnast landi og þjóð þar sem dagskrá æfingarinnar var mjög þétt en sum liðin fóru í stutta skoðunarferð sl. laugardag áður en landið var yfirgefið.   Á æfingunni náðu sprengjueyðingarsveitirnar að ljúka 130 verkefnum á árangursríkan hátt.  Áhöfn varðskipsins Týs tók virkan þátt í æfingunni í samvinnu við kafarasveit Landhelgisgæslunnar en viðbrögð við hryðjuverkum í höfnum voru sérstaklega æfð í tilefni af nýjum lögum um siglingavernd.   Sjá meðfylgjandi myndir sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar tóku á meðan á æfingunni stóð, m.a. af sprengjusérfræðingum og vélmenni að störfum og stjórnstöð æfingarinnar í hýbýlum varnarliðsins.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.                      

Þrír menn björguðust er bátur þeirra sökk norðvestur af Skagatá

Fimmtudagur 2. september 2004. Tilkynningarskyldan lét vita kl. 4:53 að leki væri kominn að dragnótarbátnum Kópnesi ST-046, 27 sjómílur norðvestur af Skagatá.  Togarinn Kaldbakur EA-1 var þá í 6 sjómílna fjarlægð frá Kópnesi.  Fimm mínútum síðar var tilkynnt að áhöfnin, 3 menn, væru að fara í björgunarbáta og að veður væri gott á svæðinu.  Skömmu síðar lét Tilkynningarskyldan vita að Kópnesið væri að sökkva og að vel hefði gengið að setja út björgunarbáta. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var kölluð út og fór í loftið kl. 5:28.  Þegar þyrlan hafði verið á flugi í um 10 mínútur var hún afturkölluð þar sem búið var að bjarga mönnunum um borð í Kaldbak EA-1. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.
Síða 2 af 2