Fréttayfirlit: janúar 2015 (Síða 2)

Varðskipið Týr komið til hafnar á Ítalíu með Ezadeen

Varðskipið Týr kom upp úr klukkan tíu í kvöld til hafnar, í Corigliano á Suður Ítalíu, með flutningaskipið Ezadeen í togi. Við komuna til hafnar var hafist handa við að flytja fólkið frá borði með aðstoð ítalskra yfirvalda. Þessi umfangsmikla björgunaraðgerð hófst af hálfu varðskipsins Týs um klukkan fjögur á nýársdag eftir að neyðarkall barst frá skipinu. Var það þá stjórnlaust á fullri ferð eftir að áhöfn skipsins hafði yfirgefið það. 

Týr kemur til Corigliano í kvöld

Varðskipið Týr stefnir nú til ítalska hafnarbæjarins Corigliano á Suður Ítalíu, með flutningaskipið Ezadeen í togi. Reiknað er með að varðskipið Týr komi um tíu leytið í kvöld til hafnar. Um borð í flutningaskipinu eru rúmlega fjögur hundruð flóttamenn, þar af 60 börn.  

Varðskipið Týr með flutningaskipið í togi - um borð eru yfir 400 flóttamenn

Varðskipið Tyr heldur nú til suður Ítalíu með flutningaskipið Ezadeen í togi en yfir 400 flóttamenn eru um borð í Ezadeen. Týr kom að skipinu um kl. 20:00 í gærkvöldi út af Taranto flóa á suður Ítalíu en þá stefndi skipið til lands á fullri ferð en áhöfnin hafði yfirgefið skipið. Varðskipsmönnum tókst að komast um borð þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Skipin eru væntanleg til land seinnipartinn í dag en ferðin sækist seint sökum veðurs.

Uppfærðar upplýsingar varðandi björgunaraðgerð v/s Týr

LHG_Frontex_SamvinnaAegirSif

kl. 00:30 Uppfærðar upplýsingar um aðgerðir varðskipsins Týs. 
Varðskip Landhelgisgæslunnar, v/s Týr er nú í umfangsmikilli björgunaraðgerð á Miðjarðarhafi, undan ströndum Ítalíu.  Samkvæmt upplýsingum skipherra eru aðstæður afar erfiðar og skipið í þungum sjó.  Um er að ræða neyðarkall frá flutningaskipi sem heitir Ezadeen og siglir stjórnlaust á fullri ferð, þar sem áhöfn skipsins virðist hafa yfirgefið það.  Talið er að um borð séu allt að 400 flóttamenn, þar af tugir barna og kvenna.  Ekki er vitað nákvæmlega um ástand fólksins en þó er ljóst að vistir, meðal annars vatn er á þrotum.

Varðskipið Týr tekur þátt í björgunaraðgerð á S - Jónahafi

Varðskipið Týr var í dag kallað til aðstoðar við björgun 400 flóttamanna, þar af 60 barna, sem stödd eru um borð í vélarvana flutningaskipi á Suður Jónahafi sem rekur í átt að strönd Pugliu á Ítalíu. Varðskipið tekur þátt í aðgerðum undir merkjum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins en aðgerðir fara fram undir stjórn björgunarstjórnstöðvarinnar í Róm. Auk varðskipsins Týs taka þyrlur ítölsku strandgæslunnar þátt í björguninni. 

Síða 2 af 2