Árangursrík leitaræfing á Langjökli

  • Sif_Lif_Gna2_BaldurSveinsson

Þriðjudagur 10. maí 2011

Afar árangursrík æfing var í gær haldin með þátttöku flugvélar og þyrlu Landhelgisgæslunnar auk tveggja félaga úr Flugbjörgunarsveitinni sem brunuðu upp á Langjökul og léku sig týnda. Tilgangur æfingarinnar var að finna vélsleðamennina tvo með leitar og eftirlitsbúnaði um borð í loftförunum tveimur.

Vélsleðamennirnir tveir komu sér fyrir á jöklinum og hófst leitin með eftirlitsratsjá flugvélarinnar TF-SIF  úr 17 þúsund feta hæð. Notuð var AES aðgreiningartækni sem gera stýrimönnum kleift að finna slóð eftir sleða og bíla. Gerir það leit á jöklum í lélegu skyggni mun auðveldari. Þegar flugvélin hafði fundið mennina voru leitarferlar gefnir upp fyrir þyrluna sem leitaði með hitamyndavél og voru flognir samsíða leggir, 3 sml. langir með 0,5 sml. bili. Fundust mennirnir á fjórða leitarlegg.

Mikinn lærdóm má draga af þessari æfingu sem á eflaust eftir að nýtast í framtíðinni við jöklaleit og í slæmu skyggni. Einnig er í ákveðnum aðstæðum leitar og björgunar hægt að nota hitamyndavél (EO/IR) og hliðarradar (SLAR) flugvélarinnar .  Með í æfingunni voru tveir tæknimenn frá fyrirtækinu L3 í Texas sem á heiðurinn af tæknibúnaði flugvélarinnar en þróun hans fer fram í samstarfi við Landhelgisgæsluna og sænsku strandgæsluna sem á flugvélar sömu tegundar og TF-SIF.

Sjá myndir TF-SIF frá æfingunni.

Joklaaefing052011

Mynd af loftförum: Baldur Sveinsson.