Undirbúningur um borð
Hafið eftirfarandi atriði í huga þegar von er á þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja fólk um borð í skip eða báta. Sjá má myndbönd hér að neðan sem sýna réttu handtökin.
1. Hafið stöðuga hlustun á 2182 kHz og rás 16. Þegar þyrlan nálgast eru samskipti færð yfir á rás 6.
2. Veljið og hafið tilbúinn þann stað á skipinu sem öruggast er að hífa upp frá. Fjarlægið eða festið allt lauslegt. Ef loftnet eru á milli mastra þá slakið þeim niður. Festið gerta og bómur eða fellið þær. Endanleg ákvörðun um hífingarstað verður þó alltaf tekin af áhöfn þyrlunnar. Stöðvið ratsjárloftnet (scanner).
3. Vegna nætursjónauka þyrluáhafnarinnar er nauðsynlegt að takmarka lýsingu eins og hægt er. Ekki skal hafa kveikt ljós er lýsa upp. Í einstaka tilfellum óskar áhöfn þyrlunnar eftir meiri lýsingu.
4. Veljið þrjá menn til að taka á móti sigmanni og sjúkrabörum. Þeir skulu vera í björgunarvestum og með öryggishjálma á höfði. Einn sér um tengilínuna og tveir um börurnar. Tengilínumaðurinn skal vera í góðum hönskum.
5. Látið flugmennina vita í tíma um þann stað sem valinn hefur verið til að hífa upp frá. Híft er af stefni, miðskips (bakborðsmegin) og af skut. Þegar híft er af stefni er skipið á reki með stjórnborðssíðu upp í vind. Þegar híft er miðskips er skipinu haldið með minnstu stjórnferð uppí vind. Þegar híft er af skut er vindurinn hafður 30° inn á bakborðsbóg og haldið minnstu stjórnferð. Veðurfar og sjólag ráða miklu um það hvar best er að hífa af skipum og geta aðstæður því ráðið því að staðið yrði öðruvísi að hífingu en upp hefur verið talið, til dæmis að hafa skut upp í vind, en þyrluáhöfn metur alltaf aðstæður fyrir hífingu.
6. Munið að mikill hávaði er frá þyrlunni og niðurstreymi frá þyrluspöðunum mikið. Útskýrið vel fyrir skipverjum hvernig hífingin fer fram, hvert þeirra hlutverk er og hvað beri að varast, áður en þyrlan kemur. Samræður á þilfari eru vonlausar meðan á hífingu stendur. Áríðandi er að gott fjarskiptasamband sé á milli skips og þyrlu meðan á hífingu stendur.
Hífing úr björgunarbát getur farið fram á þrennan hátt:
1. Sigmaður kemur frá þyrlunni án tengilínu og er hífður með hverjum og einum.
2. Tengilínu er komið í bátinn á undan sigmanninum, eða hann kemur með hana með sér og verður hann þá eftir í bátnum meðan mennirnir eru hífðir upp einn eða tveir í einu.
3. Tengilínu komið í bátinn og mennirnir dragi til sín björgunarlykkjuna og komi sér sjálfir í hana.
Mikilvægt er að hafa í huga þegar tengilína er tekin um borð í gúmmíbjörgunarbát að taka plastbelginn sem er á enda hennar um borð í bátinn til að halda sambandinu þótt maður missi tak á línunni, en láta línuna sjálfa fara í sjóinn svo hún flækist ekki í fótum þeirra sem í bátnum eru.
Hífingar frá skipi
Mynd a
Tengilínu komið um borð í skip. Tengilínan er höfð til þess að þyrlan þurfi ekki að vera yfir skipinu allan tímann meðan á hífingu stendur. Einn maður skal sjá um tengilínuna. Ekki má festa tengilínuna við skipið.
Mynd b)
Sjúkrabörum (sigmanni, lækni) slakað niður og er tengilínan notuð til að draga börurnar (sigmanninn, lækninn) inn á skipið og halda við þegar híft er til þess að börurnar sveiflist ekki.
Mynd c)
Láta skal sjúkrabörur snerta rekkverk eða lunningu áður en tekið er á þeim vegna stöðurafmagns sem hleðst upp í þyrlunni á flugi. Ef sigmaður eða læknir kemur niður á undan er vír úr króknum og niður fyrir hann sem afrafmagnar þyrluna. Tengilínan leiðir ekki rafmagn. 2—3 menn skulu sjá um sjúkrabörurnar.
Mynd d)
Krókurinn er alltaf losaður úr sjúkrabörunum og settur útfyrir lunningu á meðan að sjúklingi er komið fyrir í þeim. Haldið í með tengilínunni, nema ákveðið sé af þyrluáhöfn að fara í biðflug á meðan sjúklingur er undirbúinn til flutnings en þá er krókurinn hífður upp og tengilínan tekin inn í þyrluna. Aldrei má festa krókinn né tengilínuna í skipið.
Mynd e)
Sjúkrabörurnar hífðar upp undir litlu horni, en haldið við með tengilínunni svo þær sveiflist ekki og gefið vel eftir þegar þær koma að vélinni. Þegar tengilínan er tekinn upp skal slaka henni rólega frá skipinu og að lokum kasta belgnum frá skipinu.
Ensk heiti á björgunarbúnaði sem notaður er frá þyrlum:
Björgunarlykkja Rescue Strop*, Horse collar, Rescue sling.
Sjúkrabörur Stokes Litter, Rescue litter, Rescue Stretcher*.
Björgunarsæti Penetrator*, Rescue seat.
Björgunarnet Rescue net.
Björgunarkarfa Rescue basket.
Tengilína Trailline*, Tagline, Guideline.