Fréttayfirlit: júní 2005

Nýtt skipulag Landhelgisgæslunnar, stefnumótun og nýtt lagafrumvarp

Fimmtudagur 30. júní 2005.Fjölmennur fundur starfsmanna Landhelgisgæslunnar var haldinn í flugskýli stofnunarinnar við Reykjavíkurflugvöll í gærdag til þess að kynna niðurstöður stefnumótunar- og greiningarvinnu sem unnin hefur verið síðan í febrúar sl. í samstarfi við sérfræðinga frá IMG ráðgjöf.  Meðal annars var kynnt nýtt skipurit Landhelgisgæslunnar. Einnig afhenti forstjóri Landhelgisgæslunnar dómsmálaráðherra tillögu Landhelgisgæslu Íslands að nýju lagafrumvarpi um stofnunina.  U.þ.b. 80 starfsmenn Landhelgisgæslunnar mættu á fundinn. Við þetta tækifæri sagði forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson:,,Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð árið 1926. Kjörorð stofnunarinnar, nú hin síðustu ár hafa verið “Föðurland vort hálft er hafið” og eru þau orð tekin úr sálmi Jóns Magnússonar frá árinu 1945. Þessi orð  segja margt um þá mynd sem landsmenn höfðu lengst af um Landhelgisgæsluna.  Starfsemin hefur verið afar tengd hafinu sem umlykur landið og hefur skapað sérstöðu þess umfram flest annað.  Björgun mannslífa úr sjó og barátta við að vernda sameiginleg auðæfi þjóðarinnar hefur styrkt ímynd Landhelgisgæslunnar og hún hefur átt sérstakan sess í hugum þjóðarinnar lengst af.  Lög um Landhelgisgæslu Íslands eru nr. 25/1967. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þær miklu samfélagsbreytingar sem orðið hafa í heiminum síðan. Kalda stríðið er horfið, áhersla á umhverfismál og hryðjuverkaógn eru atriði sem höfðu þá engan veginn sama vægi og þau hafa nú.  Það er því ekki óeðlilegt að aðrar væntingar eru nú gerðar af stjórnvöldum og almenningi til Landhelgisgæslunnar en þegar lögin um Landhelgisgæsluna voru endurskoðuð síðast.  Lögin hafa lítið breyst frá gildistöku og engar reglugerðir hafa verið settar á grundvelli þessara laga.  Mörg ný lög og reglugerðir snerta hins vegar starfsemina og fela Landhelgisgæslunni verkefni og skyldur.  Má þar meðal annars nefna lög um mengun sjávar og lög um eftirlit með veiðum í fiskveiðilögsögunni ofl.  Lögbundið hlutverk Landhelgisgæslu Íslands er m.a. almenn löggæsla á hafinu og hjálp í sjávarháska, þar með talið sjúkraflutningar.  Enn fremur hjálp til afskekktra byggða, starfsemi Sjómælinga Íslands og sprengjuvarnir. Þá taka lögin til almannavarna en hlutverk Landhelgisgæslunnar hefur breyst hvað þann þátt varðar með flutning Almannvarna Ríkisins til Ríkislögreglustjóra. Í ljósi þessa, hefur á síðustu mánuðum, verið unnið að því að gera nýjar tillögur að frumvarpi til laga um Landhelgisgæslu Íslands. Dagmar Sigurðardóttir, lögfræðingur hefur borið hitann og þungann af því verki en það hefur hún unnið í tengslum við mastersritgerð sína í  sjávarútvegsfræðum en hún útskrifaðist sem meistari í þeim fræðum frá HÍ síðasliðinn laugardag. Við munum hér á eftir afhenda dómsmálaráðherra þessar tillögur okkar til skoðunar. Núverandi ráðamenn hafa sýnt mikinn skilning á hlutverki Landhelgisgæslunnar. Davíð Oddsson, fyrverandi forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni haustið 2003 að nauðsynlegt væri að laga starf Landhelgisgæslu Íslands að nýjum kröfum, ráðast í smíði nýs varðskips og gera áætlun um endurnýjun á flugflota hennar. Ríkisstjórnin samþykkti síðan þann 4. mars 2005 tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um endurnýjun skipa og flugvéla Landhelgisgæslu Íslands. Í tillögunni fólst að fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra verður falið að gera tillögur um kaup eða leigu á fjölnota varðskipi og eftirlitsflugvél, samningu útboðsgagna og undirbúning málsins að öðru leyti fyrir lokaákvörðun ríkisstjórnar Íslands.  Þessi jákvæðu viðhorf breyta ekki þeirri skyldu stjórnenda og starfsmanna Landhelgisgæslunnar að gera sér grein fyrir stöðu sinni og hvert þeir hyggjast leiða stofnunina í framtíðinni. Það var á þessum grunni sem ákveðið var í febrúar 2005 að hefja markvisst stefnumótunarferli hjá Landhelgisgæslunni. Afrakstur þeirrar vinnu er birtur nú í dag. Það er einlægur ásetningur minn að sú framtíðarsýn sem hér er sett fram verði leiðarljós okkar inn í framtíðina.  Ég vil þakka starfsmönnum öllum fyrir þeirra þátt í þessu vinnuferli sem var á allan hátt aðdáunarverður. Við hjá Landhelgisgæslunni erum stolt af arfleifð okkar en jafnframt tilbúin að takast á við ný og ögrandi verkefni sem bíða okkar í síbreytilegum heimi.  Þó hafið verði áfram mikilvægasti vettvangur okkar starfssvæðis höfum við skilgreint hlutverk Landhelgisgæslu Íslands á margan hátt upp á nýtt.  Eftir þá vinnu sem hér er kynnt  erum við betur til taks fyrir þá sem á okkur þurfa að halda.” Eftir ræðu forstjórans var kynning á niðurstöðu stefnumótunarvinnunnar þar sem meðal annars kom fram að hlutverk Landhelgisgæslunnar og skipulag hafa verið skilgreind að nýju. Einnig voru kynntar tillögur framkvæmdahópa sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar í samstarfi við ráðgjafa IMG hafa skipað og tekið á málefnum sem ástæða hefur þótt til að efla og bæta.  Það voru hópar um kynningarmál Landhelgisgæslunnar, handbækur og verkferla, mennta- og þjálfunarmál, innra upplýsingaflæði og tengsl milli deilda og að síðustu hópur sem fjallaði um einkenni og einkennisföt.  Þessir hópar munu starfa áfram og hafa það markmið að hrinda í framkvæmd breytingum í góðu samstarfi við aðra starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Í skýrslu IMG um helstu niðurstöður stefnumótunarverkefnisins með Landhelgisgæslunni segir:,,Meginniðurstaða þessa verkefnis endurspeglar ferðalag inn í framtíðina með nýjum einkunnarorðum Landhelgisgæslu Íslands og gildum.  Fyrirtækið segir nú skilið við einkunnarorðin ,,Föðurland vort hálft er hafið” sem vísa á nýrómantískan hátt til sjálfstæðisbaráttu ungrar þjóðar.  Í staðinn tekur það upp einkunnarorðin ,,Við erum til taks” sem vísar á breiðum grundvelli til starfsemi Landhelgisgæslunnar í nútíð og framtíð.  Það á við hvort sem vitnað er til leitar- og björgunar, löggæsluverkefna, mælijnga á öruggum siglingaleiðum eða annarra sérhæfðra verkefna sem starfsmönnum Landhelgisgæslunnar er trúað fyrir.  Kjarninn sem að baki því stendur er að vera til taks. Rauði þráðurinn sem síðan bindur saman ólíkar starfseiningar og krefjandi verkefni endurspeglast í gildum Landhelgisgæslu Íslands sem eru ,,Fagmennska, öryggi, þjónusta”. Stefnumótunarferlið sem unnið var eftir hér byggist á ítarlegu greiningarferli.Annars vegar var haldinn tveggja daga greiningarfundur í lok febrúar 2005.  Þar komu fram tæplega 160 úrbótaatriði og mikill áhugi á að vinna að því að Landhelgisgæslan gengi í endurnýjun lífdaga.  Ennfremur að vinna að því að skilgreina hlutverk betur og óljóst skipulag. Hins vegar var framkvæmd vinnustaðagreining, þar sem niðurstaðan var ekki ósvipuð og á greiningarfundinum, en tæplega 90% starfsmanna tóku þátt í henni.  Fengur hennar er ekki síst í nákvæmri greiningu á eðli vandamála eftir deildum þar sem auðvelt er að ganga í úrbótaferli. Á grundvelli öflugrar greiningar og nýrrar sýnar á eðli Landhelgisgæslunnar hafa verið gerðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins sem settar eru fram í nýju skipuriti.  Skilgreind hafa verið tvö kjarnasvið, aðgerðasvið og Sjómælingar Íslands og eitt stoðsvið, rekstrarsvið.  Hlutverk kjarnasviðanna er að vera til taks í þeim verkefnum sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin hverju sinni, hvort sem er af löggjafanum eða vegna aðstæðna sem upp koma og bregðast þarf við með skjótum hætti. Hlutverki rekstrarsviðs og stoðeininga sem heyra beint undir forstjóra er síðan að sjá kjarnasviðunum fyrir nauðsynlegum tæknibúnaði og öðrum aðföngum til að þau geti sinnt hlutverki sínu.” Sjá meðfylgjandi myndir sem teknar voru á fundinum í gær: Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra er bjartsýnn á framtíð Landhelgisgæslunnar og tók jákvætt í þær breytingar og tillögur sem kynntar voru á fundinum. Á myndinni eru Hákon Gunnarsson ráðgjafi hjá IMG, Benóný Ásgrímsson yfirflugstjóri, Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri, Georg Kr. Lárusson forstjóri, Dagmar Sigurðardóttir lögfræðingur og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar, fulltrúar dómsmálaráðuneytisins og IMG. Hákon Gunnarsson, Benóný Ásgrímsson, Svanhildur Sverrisdóttir sem skipulagði stefnumótunar- og greiningarvinnuna af hálfu Landhelgisgæslunnar í samstarfi við IMG ráðgjöf og Georg Kr. Lárusson forstjóri.Ragnhildur Magnúsdóttir gjaldkeri kynnti niðurstöður framkvæmdahóps um innri upplýsingamál LHG. Starfsmenn og aðrir fundarmenn.Stefán Eiríksson skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu, Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra. Dagmar Sigurðardóttir lögfr./upplýsingaftr.    

Svalbarðaferð Landhelgisgæslunnar og Flugmálastjórnar

Miðvikudagur 29. júní 2005.Nýlega fór Georg Kr. Lárusson forstjóri ásamt nokkrum starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og Flugmálastjórnar í kynnisferð til Svalbarða.  Ferðalangarnir kynntu sér starfsemi Airlift sem annast björgunarþjónustu fyrir sýslumanninn á Svalbarða og áttu fund með sýslumanninum.Airlift rekur samskonar þyrlur og Landhelgisgæslan og var megintilgangur ferðarinnar að skipuleggja áhafnarskipti og koma á fót sameiginlegum viðhalds- og varahlutalager. Einnig kynntu starfsmenn flugdeildar sér viðhaldsmál og björgunarbúnað Airlift og æfðu með þyrluáhöfnum þeirra.Á fundi með sýslumanninum á Svalbarða var rætt um samstarf Landhelgisgæslunnar og sýslumannsins. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar með þyrlu Airlift í baksýn. Fundur á skrifstofu Airlift. Björn Brekkan Björnsson flugrekstrarstjóri, Georg Kr. Lárusson og Tómas Vilhjálmsson flugvirki ásamt starfsmönnum Airlift.   Flugmenn, stýrimenn og flugvirkjar í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar héldu sameiginlegar æfingar með áhöfnum Airlift. Á þessari mynd sést Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar virða fyrir sér útsýnið úr þyrlu Airlift. Landslagið á Svalbarða er hrikalegt og fallegt í senn. Oddur Garðarsson tæknistjóri flugdeildar skoðaði þyrlur Airlift vandlega að innan sem utan. Flugstjórar TF-SYN, Hafsteinn Heiðarsson og Pétur Steinþórsson, sem fluttu starfsmenn Landhelgisgæslunnar og Flugmálastjórnar til Svalbarða.Flugstjórarnir Hafsteinn Heiðarsson og Sigurður Ásgeirsson, Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður og Páll Geirdal yfirstýrimaður í flugdeild. Húsakynni á Svalbarða séð úr þyrlu Arilift.  

Varðskipsnemar á Tý

Miðvikudagur 29. júní 2005.Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á varðskipinu Tý tók í síðustu ferð skipsins skemmta varðskipsnemar sér vel við leik og störf.Steinunn D. Högnadódttir nemi frá Bolungarvík að mála stafina á hlið varðskipsins Týs.Þórður Steinar Pálsson varðskipsnemi með vænan þorsk sem hann veiddi á stöng á Reyðarfirði.Nemarnir Magnús H. Harvey, Andrés Ægir Ragnarsson, Sara R. Ellertsdóttir, Þórður Steinar Pálsson, Andrés Elí Olsen og Steinunn D. Högnadóttir uppi í brú á varðskipinu Tý. 

Varðskipið Týr aðstoðaði Fjellmoye

Mánudagur 27. júní 2005.Varðskipið Týr kom norska línubátnum Fjellmoye til aðstoðar um helgina er varðskipið dró bátinn til móts við dráttarbát frá Noregi.  Vélin í Fjellmoye hrundi í orðsins fyllstu merkingu er skipið var statt suðaustur af landinu og kom varðskipið til hjálpar á föstudagskvöldið.  Týr var síðan með Fjellmoye í togi allan laugardaginn og fram yfir miðnætti aðfararnótt sunnudagsins er dráttarbáturinn frá Noregi mætti þeim u.þ.b. 12 sjómílur norðaustur af Færeyjum. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingafulltrú.Fjellmoye í togi. Mynd: Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður á Tý.

Mikil leit gerð að línu- og handfærabátnum Eyjólfi Ólafssyni GK-38

Fimmtudagur 23. júní 2005. Mikil leit var gerð að línu- og handfærabátnum Eyjólfi Ólafssyni GK-38 bæði í gær og í morgun en áhöfn TF-LIF fann bátinn 58 sjómílur vestur af Reykjanestá um eittleytið í dag og amaði ekkert að tveimur skipverjum sem voru um borð í bátnum.  Eins og kunnugt er fer Landhelgisgæslan með faglega stjórnun vaktstöðvar siglinga en þar hafa strandarstöðvar og Tilkynningarskyldan sameinast.  Skipstjóri Eyjólfs Ólafssonar GK-38 hafði samband við vaktstöð siglinga í gærmorgun kl. hálfsex og kvaðst vera að fara í lúðuróður út í svokallaðan Kant sem er 30 sjómílur vestur af Stafnesi og að hann ætlaði að hlusta á fjarskiptarás 10.  Varðstjóri í vaktstöð siglinga benti skipstjóranum á að það væri ólöglegt að fara út fyrir drægi sjálfvirku tilkynningarskyldunnar en hann sagðist samt sem áður ætla að gera það.  Þá var skipstjórinn beðinn að hlusta á rás 16 sem er alþjóðleg neyðarrás og gefa upp símanúmer í NMT-farsíma bátsins. Báturinn hvarf út af skjám sjálfvirka tilkynningarkerfisins kl. 9:20 í gærmorgun.  Starfsmenn vaktstöðvar siglinga reyndu að hafa samband við bátinn í framhaldi af því en það bar ekki árangur.  Reynt var að kalla í bátinn á öllum tiltækum rásum og hringja í farsímanúmerið sem skipstjórinn hafði gefið upp en síminn var utan þjónustusvæðis. Um kvöldmatarleytið í gær barst vaktstöð siglinga tilkynning frá bátnum Hafborgu GK-321 um að báturinn Eyjólfur Ólafsson GK-38 væri á sama stað og hann hafði gefið upp um morguninn, þ.e. í Kanti, 30 sjómílur vestur af Stafnesi.  Seinna kom í ljós að Hafborgin var stödd í höfn í Sandgerði þegar tilkynningin var send og því vandséð hvaðan skipverjar Hafborgar gátu fengið þessa vitneskju. Vaktstöð siglinga hélt áfram að reyna að ná í skipstjóra Eyjólfs Ólafssonar fram eftir kvöldi enda er það skylda starfsmanna vaktstöðvarinnar að grennslast fyrir um báta sem hverfa út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni.  Engin svör bárust frá skipstjóra Eyjólfs Ólafssonar.  Haft var samband við báta sem vitað var að væru á svæðinu og óskað eftir að þeir svipuðust um eftir Eyjólfi og reyndu að ná sambandi við hann á rás 10 sem skipstjórinn sagðist ætla að hafa opna. Tilraunir skipa og báta á svæðinu til að ná sambandi við Eyjólf báru heldur engan árangur. Í morgun fór stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í vaktstöð siglinga að skipuleggja leit að Eyjólfi Ólafssyni þegar frekari tilraunir til að ná sambandi við hann reyndust árangurslausar.  Björgunarbáturinn Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði var kallaður út um tíuleytið í morgun og áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 11.  Fór hún í loftið kl. 11:30.  Einnig var björgunarbátuinn Oddur V. Gíslason frá Grindavík kallaður út þegar starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og vaktstöðvar siglinga varð ljóst að hversu stórt leitarsvæðið yrði.Um hádegisbilið voru send út öryggisskilaboð til skipa á svæðinu, svokölluð PAN PAN skilaboð, sem eru undanfari neyðarkallsins Mayday.  Einnig var færeyski báturinn Stapinn FD-32, sem var á svæðinu, beðinn að halda í áttina að þeim stað sem síðast var vitað um Eyjólf Ólafsson.  Hann brást þegar við tilmælum vaktstöðvar siglinga og hélt af stað til leitar. Klukkan 13 í dag fann áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, Eyjólf Ólafsson 58 sjómílur vestur af Reykjanestá og amaði ekkert að skipverjum.  Báturinn var á heimleið. Þegar stýrimaður í áhöfn TF-LIF náði sambandi við skipstjórann voru skilaboðin þau að Landhelgisgæslan og vaktstöð siglinga ættu að hafa áhyggjur af einhverju öðru og var hann óhress með allt tilstandið, þ.e. að leit hefði verið gerð að bátnum. Landhelgisgæslan og vakstöð siglinga eiga að bregðast við þegar skip og bátar hverfa út úr sjálfvirku tilkynningarskyldunni.  Ef eitthvað hefði komið fyrir bátinn og áhöfn hans hefðu sömu aðilar staðið illa að vígi ef ekkert hefði verið aðhafst.  Báturinn sem leitað var að var með útrunnið haffærisskírteini þar sem björgunarbátar hans höfðu ekki verið skoðaðir nýlega og báturinn sigldi út fyrir löglegt farsvið sitt.  Þegar haffærisskírteini er ekki gilt hafa skipverjar heldur engar tryggingar.  Dagmar Sigurðardóttirupplýsingafulltrúi    

Sprengiefnistunna frá stríðsárunum kom í dragnót skipsins Aðalbjargar RE-5

Miðvikudagur 22. júní 2005. Skipstjórinn á Aðalbjörgu RE-5 hafði samband við Landhelgisgæsluna í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna torkennilegs hlutar sem hann hafði fengið í dragnót.  Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar fengu far með björgunarbát björgunarsveitarinnar Mannbjargar út í skipið sem var statt út af Þorlákshöfn og kom þá í ljós að þetta var sprengiefnistunna úr tundurdufli frá stríðsárunum.  Sprengjusérfræðingarnir fjarlægðu hvellhettu og forsprengju úr tunnunni og síðan var farið í land með hana og sprengiefnið tekið frá borði.  Nú um kl. 16:30 eru sprengjusérfræðingarnir að fara að eyða sprengiefninu í sandgryfjum milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti sjúkling frá Grundarfirði til Reykjavíkur

Þriðjudagur 21. júní 2005.Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, sótti hjartveikan sjúkling til Grundarfjarðar í dag.Tilkynning barst til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar kl. 14:22 en hjúkrunarfræðingur á Grundarfirði hafði óskað eftir að sjúklingurinn yrði fluttur til Reykjavíkur með þyrlu.  Hann þurfti að komast með hraði á Landspítalann við Hringbraut.  Svo vel vildi til að þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var við æfingar á Breiðafirði er útkallið barst og var því skamma stunda að sækja sjúklinginn og flytja hann til Reykjavíkur.  Þyrlan lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli um kl. 15:30.Dagmar Sigurðardóttir upplýsingaftr.

Fyrstu varðskipsnemar sumarsins hjá Landhelgisgæslunni

Þriðjudagur 21. júní 2005. Landhelgisgæslan hefur í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga boðið nemendum úr 10. bekkjum grunnskólanna um land allt að fara með varðskipum Landhelgisgæslunnar í nokkurs konar starfsnám yfir sumartímann.  Nemendur geta sótt um að fá að vera varðskipsnemar í einni ferð með varðskipi.  Sex nemendur fá að fara með í hverja ferð og hafa færri komist að en sótt hafa um. Varðskipsnemar fá sérstök einkennisföt og fá að kynnast öllum helstu störfum um borð í varðskipunum hvort sem er í vél, í eldhúsi, á þilfari eða á stjórnpalli.  Á meðfylgjandi mynd má sjá fyrstu nema sumarsins 2005 auk skipherra og yfirstýrimanns v/s Týs og sonar yfirstýrimannsins. Talið frá vinstri er Thorben Lund yfirstýrimaður, Stígur Berg Sophusson varðskipsnemi, Bergþór Lund yfirstýrimannssonur, Arnar Friðrik Albertsson varðskipsnemi, Ingvar Leví Gunnarsson varðskipsnemi, Símon Bergur Sigurgeirsson varðskipsnemi og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra. Myndina tók Vilhjálmur Óli Valsson. Pálmi Jónsson 2. stýrimaður á varðskipinu Óðni er hér að kenna þeim Rakel S. Jónasdóttur  og Kristjáni K. Kristjánssyni varðskipsnemum, leyndardóma siglingafræðinnar. Þau eru að handleika sextant en hann er notaður til að mæla hæð himintungla og einnig til að mæla lárétt horn, allt til að staðsetja skipin rétt í sjókortum. Sextantinn var mikið notaður áður fyrr en nú hafa önnur tæki að mestu leyst hann af hólmi, til dæmis GPS-staðsetningartæki.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.

Sjúkraflug í togarann Ostrovets á Reykjaneshrygg- Góð samvinna varðskipsins Óðins, þyrlunnar TF-LIF og þyrlu varnarliðsins

Þriðjudagur 14. júní 2005.   Umboðsmaður togarans Ostrovets frá Dóminíka hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 2:30 í nótt vegna skipverja sem hafði hlotið stungusár á kvið.  Samkvæmt upplýsingum frá togaranum hafði skipverjinn hlotið áverkana við fiskvinnslu um borð.  Skipið var þá statt á Reykjaneshrygg 268 sjómílur frá Reykjavík.  Umboðsmaðurinn var beðinn um að segja skipstjóra Ostrovets að sigla á fullri ferð í átt að landi.  Þar næst hafði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við lækni í áhöfn TF-LIF og lét hann vita um ástand mannsins.    Varðskipið Óðinn var við eftirlit á svæðinu og fóru tveir stýrimenn og tveir hásetar frá Óðni um borð í Ostrovets og hlúðu að skipverjanum og bjuggu hann undir flutning með þyrlu.     TF-LIF fór í loftið kl. fjögur og fékk fylgd þyrlu varnarliðsins þar sem um svo langa vegalengd var að ræða.  Þegar þyrlurnar komu að skipinu var það statt 240 sjómílur frá Reykjavík.  Vel gekk að hífa manninn um borð og að sögn Magnúsar Arnar Einarssonar stýrimanns/sigmanns í áhöfn þyrlunnar var mikill munur að hafa skipverja frá Óðni um borð í Ostrovets til að aðstoða við hífinguna.  Það flýtti fyrir því þá þurfti sigmaður ekki að fara niður í skipið til að undirbúa hífinguna.  Það skipti einnig máli vegna flugþols þyrlunnar en þetta sjúkraflug var í lengsta lagi.   Samkvæmt upplýsingum frá Ostrovets er hinn slasaði 28 ára karlmaður frá Rússlandi en flestir í áhöfn skipsins eru Rússar.  Áhöfn TF-LIF hafði náð hinum slasaða um borð um sexleytið í morgun og kom þyrlan til Reykjavíkur kl. 8:20.  Hinn slasaði var fluttur á Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi.  Eins og fram hefur komið í fréttum er togarinn Ostrovets eitt af sjóræningjaskipunum sem fjallað hefur verið um í fréttum.  Sjá lista (B-lista) yfir skip sem veiða ólöglega á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar á heimasíðu NEAFC á slóðinni:http://neafc.org/measures/index.htm   Meðfylgjandi myndir tók Sverrir Erlingsson flugvirki/spilmaður í áhöfn TF-LIF fyrir utan myndina inni í TF-LIF sem  Magnús Einarsson stýrimaður/sigmaður tók inni í þyrlunni.   Dagmar Sigurðardóttir upplýsingaftr.   Séð frá TF-LIF. Togarinn Ostrovets og varðskipið Óðinn í baksýn.   Togarinn Ostrovets og léttbátur varðskipsins Óðins.   Læknir og flugvirki að störfum í TF-LIF.   Varnarliðsþyrlan fylgir í humátt á eftir TF-LIF.   Varðskipið Óðinn og togarinn Ostrovets.      

Dræmar veiðar á Reykjaneshrygg

Þriðjudagur 14. júní 2005. Halldór Nellett skipherra á varðskipinu Óðni sem hefur verið við eftirlit á Reykjaneshrygg segir að þar séu að veiðum 50 togarar.  Flestallir eru þétt við mörk íslensku efnahagslögsögunnar í hálfgerðum línudansi.  Þar af eru 7 sjóræningjaskip frá Dóminíka. Einnig eru þar togarar frá aðildarlöndum NEAFC, frá Rússlandi, Spáni, Þýskalandi, Portúgal og Færeyjum.  Að auki eru 10 íslensk skip að veiðum á svæðinu. Að sögn Halldórs hafa fiskveiðieftirlitsmenn frá varðskipinu margoft óskað eftir að fara um borð í hin svokölluðu sjóræningjaskip til eftirlits en ávallt verið neitað.  Segjast skipstjórar þeirra vera í fullum rétti við veiðar á úthafinu.  Halldór hefur bent þeim á að þeir séu að veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði sem gerður hafi verið alþjóðasamningur um og að þeir séu að veiðum kvótalausir. Eins og fram hefur komið er ekki fleira sem hægt er að gera gagnvart þessum sjóræningjaskipum annað en að tilkynna um þau til skrifstofu NEAFC sem hefur samband við fánaríki þeirra með tilmælum um að þeim verði gert að hætta veiðum.  Einnig er þessum skipum neitað um þjónustu í aðildarríkjum NEAFC. Sjá heimasíðu NEAFC og reglur um hvað aðildarríkin mega gera gagnvart veiðum kvótalausra skipa á svæðinu:http://neafc.org/measures/docs/NCPscheme-2005.pdf Halldór segir veiðarnar á svæðinu vera dræmar og sem dæmi nefnir hann að við eftirlit um borð í tveimur rússneskum skipum í gær hafi komið í ljós að bæði höfðu verið að veiðum í 55 daga og hafði annað þeirra veitt 561 tonn en hitt 703 tonn.  Einnig var farið um borð í norskan togara í gær en hann hafði verið að veiðum í 53 daga og veitt 997 tonn.  Skipin eru að veiða úthafskarfa. Að sögn Halldórs Nellett var gott samstarf milli áhafnar TF-LIF og skipverja á varðskipinu Óðni í nótt er TF-LIF sótti slasaðan skipverja af togaranum Ostrovets.  Varðskipsmenn voru komnir um borð í skipið tímanlega til að undirbúa hinn slasaða undir flutning og aðstoða við hífinguna.  Sjá meðfylgjandi myndir frá áhöfn varðskipsins Óðins. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.Rússneskt skip að löglegum veiðum á Reykjaneshrygg.Rússneska skipið Omar að umskipa afla yfir í annað skip. Allt löglegt þar.Sjóræningjaskipið Olchan.

Tundurdufli eytt á Eskifirði

Sunnudagur 12. júní 2005. Skipstjórinn á Sólborgu ÞH-270 hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um kl. 10 í morgun og óskaði eftir aðstoð vegna tundurdufls sem komið hafði upp með veiðarfærum skipsins.  Skipið var þá statt í mynni Reyðarfjarðar.  Skipstjórinn fékk samband við sprengjusérfræðing Landhelgisgæslunnar sem leiðbeindi honum um hvaða ráðstafanir ætti að gera.  Tveir starfsmenn sprengjudeildar héldu síðan austur á land og komu til Reyðarfjarðar um kl. 17.  Síðan flutti björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði sprengjusérfræðingana með gúmmíbjörgunarbát út í skipið Sólborgu.  Þar gerðu þeir duflið óvirkt.  Síðan var Sólborgu siglt til hafnar á Reyðarfirði.  Þar var duflið tekið í land og vegna sérstakra aðstæðna var duflið flutt til Eskifjarðar þar sem það var brennt.Myndirnar tók Einar Guðberg Jónsson, varðstjóri í lögreglunni á Eskifirði.Dagmar Sigurðardóttirupplýsingafulltrúi Sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar hafði gert duflið óvirkt er Sólborg kom til hafnar á Reyðarfirði. Duflið var geymt í fiskikassa um borð í Sólborgu. Sprengjusérfræðingur og aðstoðarmaður hans undirbúa eyðingu duflsins. Duflið brennt í gryfju við Eskifjörð.

Landhelgisgæslan og sjómannadagurinn

Miðvikudagur 8. júní 2005. Landhelgisgæslan tók þátt í sjómannadeginum með margvíslegum hætti.  Varðskipið Týr var til sýnis fyrir almenning í Reykjavíkurhöfn og kom fjöldi manns að skoða skipið.  Áhöfn TF-SIF sýndi björgunaræfingar í Reykjavík og Hafnarfirði en þær fólust í því að tveir menn voru hífðir úr björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og tveir úr sjó.Að morgni sjómannadagsins tók áhöfn varðskipsins Týs, forstjóri Landhelgisgæslunnar og varðskipsnemar þátt í minningarathöfn í Fossvogskirkjugarði.  Áhöfnin ásamt forstjóra stóð þar heiðursvörð þegar lagður var blómsveigur að leiði óþekkta sjómannsins. Þeir sömu tóku einnig virkan þátt í sjómannadagsmessu í dómkirkjunni.  Sjá á heimasíðu þjóðkirkjunnar frásögn af þeirri hefð að halda sjómannadaginn hátíðlegan og þáttöku kirkjunnar í þeim sið:http://www.kirkjan.is/?frettir/2005?id=173 Dagmar Sigurðardóttir upplýsingaftr.Að athöfn lokinni í Fossvogskirkjugarði. Frá vinstri Ágúst Skorri Sigurðsson háseti og Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður sem báru blómsveiginn og Thorben Lund yfirstýrimaður sem stjórnaði heiðursverði. Skrúðganga til kirkju á sjómannadag.  Fyrir göngunni með íslenska fánann fóru Thorben Lund yfirstýrimaður og Geirlaug Jóhannesdóttir háseti. Rögnvaldur K. Úlvarsson háseti bar stjörnufána sjómannadagsins.  Hver stjarna í fánanum táknar þá er misstu líf sitt á sjónum frá síðasta sjómannadegi en tveir sjómenn hafa látist síðan þá.  Á eftir fánaberum kom forseti Íslands, sjávarútvegsráðherra, sjómannadagsráð, áhöfn varðskipsins Týs og aftast séra Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur og biskup Íslands séra Karl Sigurbjörnsson. Guðmundur Rúnar Jónsson stýrimaður og Hreinn Vídalín háseti fara með ritningalestra í sjómannadagsmessu í Dómkirkjunni en áhöfn varðskipsins Týs, forstjóri Landhelgisgæslunnar og varðskipsnemar tóku virkan þátt í messuhaldinu. Áætlað er að a.m.k. 1000 manns hafi komið að skoða varðskipið Tý á meðan það var til sýnis við Reykjavíkurhöfn á sjómannadaginn. Áhöfn TF-SIF sýnir björgunaræfingu ásamt áhöfn björgunarskips Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.  

Flutningaskipinu Sunny Jane vísað frá höfn í Hollandi og neitað um þjónustu

Þriðjudagur 7. júní 2005. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Landhelgisgæslan undanfarið verið með eftirlit á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) á Reykjaneshrygg en þar hafa m.a. sjóræningjaskip verið að veiðum.  Ísland er aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni ásamt Evrópusambandslöndunum, Noregi, Færeyjum, Grænlandi, Rússlandi, Eistlandi og Póllandi.  Þau skip sem veiða án leyfis og kvóta á svæðinu eru kölluð sjóræningjaskip.  Þann 27. maí tók áhöfn flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, mynd af flutningaskipinu Sunny Jane taka við fiski frá togaranum Okhotino sem skráður er í Dominika.  Landhelgisgæslan tilkynnti stjórn NEAFC um þetta þar sem Okhotino hefur ekki leyfi til veiða á svæðinu. Sunny Jane kom til hafnar í Emshaven í Hollandi 2. júní sl. og sætti rannsókn hollenskra yfirvalda. Skipinu var meinað að landa aflanum og fékk enga þjónustu í Hollandi en það er í samræmi við reglur NEAFC sem hafa verið lögfestar í aðildarríkjunum.  Sjá um þetta 3. gr. laga nr. 22/1998 um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á slóðinni:http://www.althingi.is/lagas/nuna/1998022.html Aðildarríki NEAFC halda áfram að fylgjast með ferðum skipsins.  Við rannsókn hollenskra yfirvalda um borð í Sunny Jane kom í ljós að flutningaskipið hafði tekið við afla frá skipunum Orlik, Olchano, Ostor, Oyra og Olchan.  Tvö síðastnefndu skipin eru á svarta lista NEAFC, B-listanum, sem sjóræningjaskip.  Auk þess hafði Landhelgisgæslan staðið skipið Okhotino að því að umskipa afla yfir í Sunny Jane eins og áður segir. Sjá heimasíðu NEAFC á slóðinni:http://neafc.org/ Þar sést að Sunny Jane er komin á svartan lista NEAFC, svokallaðan A-lista (undir dálkinum MEASURES). Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr. Fiskveiðistjórnunarsvæði NEAFC á Reykjaneshrygg.

Ný brú á Ægi

Mánudagur 6. júní 2005 Ný brú var sett á varðskipið Ægi sl. föstudag í skipasmíðastöð í Póllandi.  Endurbætur og breytingar á Ægi ganga vel og er gert ráð fyrir að skipið verði tilbúið fyrri part ágústmánaðar.Sjá meðfylgjandi myndir sem voru teknar á föstudaginn er nýu brúnni var komið fyrir á Ægi. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.  

Félagsdómur dæmdi flugmönnum Landhelgisgæslunnar í hag - flugmenn eiga rétt á að ferðast á viðskiptafarrými

Mánudagur 6. júní 2005. Eftir að kjarasamningur ríkisins við flugmenn Landhelgisgæslunnar var samþykktur 25. ágúst 2004 kom upp ágreiningur um hvort ákvæði greinar 17-16 í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) við Flugleiðir hf/Icelandair ehf. gilti um flugmenn Landhelgisgæslunnar.  Í ákvæðinu segir:Bóka skal flugmenn á viðskiptafarrými eða betra þegar ferðast er á vegum Icelandair eða annarra fyrirtækja Flugleiðasamstæðunnar (Flugleiða hf), hvort sem er með eigin vélum eða öðrum flugfélögum. Flugmaður víkur sæti fyrir fullborgandi farþega í vélum Icelandair. Þó  er heimilt að ætla flugmanni annað en viðskiptafarrými með erlendum flugfélögum sé áætlaður flugtími innan við eina klst. Í 10. gr. laga nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands segir:Laun og kjör þeirra starfsmanna, sem vinna að staðaldri við störf á sjó eða í lofti, skulu vera í samræmi við kjarasamninga viðkomandi stéttarfélaga, eftir því sem við á, eða eftir sérstökum samningum stéttarfélaga við stjórn Landhelgisgæslunnar.Samkvæmt þessu ákvæði eru laun og önnur kjör flugmanna Landhelgisgæslu Íslands byggð á samningi FÍA við Flugleiðir hf/Icelandair ehf.  Ríkið gerir þó sérstakan stofnunarsamning við flugmenn Landhelgisgæslunnar og er í honum vísað í fyrrgreindan kjarasamning Flugleiða hf/Icelandair ehf. við FÍA. Af hálfu ríkisins var því m.a. haldið fram að framangreint ákvæði væri óframkvæmanlegt fyrir ríkið þar sem það rekur ekki farþegaflugfélag en eins og áður segir tapaði ríkið málinu gegn FÍA.Sjá dóm Félagsdóms í heild á heimasíðu Félagsmálaráðuneytisins á slóðinni:http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/Felagsdomur/2005/05/30/nr/1972 Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.  

Áhöfn TF-SIF sótti slasaða skíðakonu á Snæfellsjökul

Fimmtudagur 2. júní 2005. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk samband við lögregluna í Ólafsvík í gegnum Neyðarlínuna kl. 15:18 sem tilkynnti að ung kona hefði slasast á skíðum eða snjóbretti á Snæfellsjökli.  Óskað var eftir þyrlu í viðbragðsstöðu.  Læknir var á leiðinni á slysstað og ætlaði að meta hvort þörf væri á flutningi með þyrlu. Læknir óskaði síðan eftir þyrlu kl. 16:06 og fór TF-SIF í loftið kl. 16:18.  Lenti hún á skíðasvæðinu á Jökulhálsi hálftíma síðar.  Þar beið konan í sjúkrabíl og var talið að hún væri handleggsbrotin og e.t.v. með heilahristing. TF-SIF lenti með konuna innanborðs við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 17:22. Dagmar Sigurðardóttirupplýsingaftr.