Fréttayfirlit: ágúst 2004

Einn maður komst af er kanadísk skúta sökk í gær

Þriðjudagur 31. ágúst 2004. Einn maður komst af er kanadísk skúta sökk í gær.  Félagi hans var látinn er TF-LIF kom á svæðið. Mennirnir voru á leið frá Kanada og var ferðinni heitið til Noregs. Þeir höfðu verið í þrjár vikur á siglingu er slysið átti sér stað.  Þeir höfðu ætlað að dvelja í viku á Íslandi áður en þeir héldu af stað til Noregs.Vel gekk að hífa mennina um borð í TF-LIF.  Í áhöfn TF-LIF voru Jakob Ólafsson flugstjóri, Björn Brekkan flugmaður, Einar Valsson stýrimaður, Auðunn F. Kristinsson stýrimaður, Reynir G. Brynjarsson flugvirki/spilmaður og Jón Magnús Kristjánsson læknir.  Auðunn var sigmaður í þessari ferð. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd frá björgunarstjórnstöðinni í Halifax:  Kanadíska skútan Silver á siglingu.  Mynd Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður: Skipbrotsmaðurinn ásamt Einari Valssyni stýrimanni við komuna til Reykjavíkur í gær.  

Sameiginlegar æfingar Landhelgisgæslunnar og Flugbjörgunarsveitarinnar

Mánudagur 30. ágúst 2004.   Landhelgisgæslan heldur margvíslegar æfingar með björgunarsveitum.  Tilgangurinn er að undirbúa viðbrögð við slysum og geta á árangursríkan hátt bjargað fólki sem er í hættu statt.  Sem dæmi má nefna sameiginlegar æfingar með Flugbjörgunarsveitinni en nokkrum sinnum á ári fara fallhlífastökkvarar sveitarinnar með Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, og stökkva út úr henni í mismunandi mikilli hæð.  Flugvélin er þannig búin að hægt er að opna dyr hennar á flugi og varpa út úr henni björgunarbúnaði.  Þessi möguleiki gagnast einnig fallhlífastökkvurum.    Átta fallhlífastökkvarar Flugbjörgunarsveitarinnar fóru með TF-SYN sl. föstudag og var tilgangurinn að fara í æfingastökk yfir Sandskeiði.  Fjórir stukku úr 800 feta hæð  og opnuðust fallhlífar þeirra strax við stökkið.  Við slíkar aðstæður geta stökkvararnir ekki stýrt sér niður.   Hinir fjórir stukku úr 3000 feta hæð í frjálsu falli þannig að þeir gátu stýrt sér niður og lent á þeim stað sem þeir kusu.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók við það tækifæri.   Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands kemur m.a. fram að markmið Landhelgisgæslunnar sé að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi, svo og að annast aðkallandi sjúkraflutninga ýmist á eigin spýtur eða í samvinnu við þá aðila sem að björgunarstörfum vinna.  Í lögum um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn segir að björgunarsveit sé félag sem á grundvelli sjálfboðaliðastarfs tekur þátt í björgun, leit og gæslu að beiðni stjórnvalda.  Það gefur því auga leið að mikið og gott samstarf þarf að vera milli Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita í landinu og eru sameiginlegar æfingar liður í því.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd JPÁ:  Auðunn F. Kristinsson stýrimaður ásamt tveimur fallhlífastökkvurum Flugbjörgunarsveitarinnar rétt áður en þau stukku í frjálsu falli úr 3000 feta hæð.   Mynd JPÁ:  Flugbjörgunarsveitarmenn fyrir framan TF-SYN áður en haldið var í flug sl. föstudag.

Kanadísk skúta sökk 25 sjómílur suðvestur af Malarrifi í dag

Mánudagur 30. ágúst 2004.   Björgunarstjórnstöðin í Halifax í Kanada hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar  kl. 17 í dag og tilkynnti að kanadísk skúta væri að sökkva um 25 sjómílur suðvestur af Malarrifi.  Björgunarstjórnstöðin í Halifax hafði þessar upplýsingar frá ættingjum áhafnar skútunnar sem höfðu náð símasambandi við þá með gervihnattasíma.  Um borð í skútunni voru tveir menn.  Símasamband við skútuna hafði rofnað og tilraunir til ná í hana aftur höfðu ekki borið árangur.   Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði út áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, kl. 17:04 í beinu framhaldi af samtali við björgunarstjórnstöðina í Halifax. Einnig var haft samband við  Tilkynningarskyldu íslenskra skipa og óskað eftir að neyðarkall yrði sent út á rás 16 svo að skip á svæðinu fengju upplýsingar um málið.  Áhöfn TF-SYN, Fokker flugvélar Landhelgisgæslunnar, var einnig kölluð út ásamt Flugbjörgunarsveitinni til að leita að skútunni.  Þá var Varnarliðið beðið um að setja þyrlu í viðbragðsstöðu.   TF-LIF fór í loftið kl. 17:28.  Áhöfn hennar hafði samband við stjórnstöð kl. 18:05 og hafði leit þá engan árangur borið.  Aðstæður til leitar og björgunar voru ekki góðar.  Mjög hvasst var á svæðinu eða 20-25 metrar á sekúndu og skyggni um 2 kílómetrar og lágskýjað.  Ölduhæð var 4-5 metrar.  Vegna leitarskilyrða fór TF-SYN, flugvél Landhelgisgæslunnar, ekki í loftið.   Skömmu síðar, eða kl. 18:13 sá áhöfn TF-LIF mennina í sjónum.  Annar þeirra var í björgunargalla en hinn í vesti.  Búið var að hífa þá um borð kl. 18:20.    Að sögn Einars Valssonar stýrimanns í TF-LIF var með ólíkindum að mennirnir skyldu finnast þetta fljótt því þeir voru í dökkum göllum og aðstæður til leitar þetta slæmar.  Ekki er unnt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu.    TF-LIF lenti við flugskýli Landhelgisgæslunnar kl. 19:06 þar sem sjúkrabifreiðir tóku á móti mönnunum og fluttu þá á sjúkrahús.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd JPÁ: Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, lenti kl. 19:06 á Reykjavíkurflugvelli.  Þar biðu sjúkrabifreiðar sem fluttu skipbrotsmenn á sjúkrahús.  Ekki er unnt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu.

Northern Challenge 2004, fjölþjóðleg æfing sprengjueyðingarsveita, að hefjast

Föstudagur 27. ágúst 2004.   Fjölþjóðleg æfing sprengjueyðingarsveita, Northern Challenge 2004, hefst mánudaginn 30. ágúst og stendur til 3. september næstkomandi.  Landhelgisgæslan stendur fyrir æfingunni í samvinnu við Varnarliðið.   Þetta er í þriðja skipti sem Northern Challenge-æfingin er haldin og sú umfangsmesta hingað til.  Sérstök áhersla verður lögð á siglinga- og hafnarvernd en eins og kunnugt er voru nýlega samþykkt lög um siglingavernd á Íslandi vegna alþjóðlegra krafna um öryggi skipa, hafna og farmsendinga milli landa.  Í þeim tilgangi verða prófaðar aðferðir og tækni til að bregðast við hryðjuverkasprengingum í höfnum og um borð í skipum.  Einnig verða æfð viðbrögð við sprengjum á flugvöllum.    Að minnsta kosti 130 viðfangsefni verða sett á svið fyrir sprengjusérfræðingana til að bregðast við.  Sjö erlendar sprengjueyðingarsveitir taka þátt í æfingunni en þær eru frá Danmörku, Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum.  Allar sveitirnar hafa sprengjueyðingu að aðalstarfi og hafa flestar þeirra starfað á átakasvæðum, m.a. í Írak, Afganistan, á Balkanskaga og á Norður Írlandi auk þess að sjá um viðbrögð við hryðjuverkum í sínu heimalandi.   Gott samstarf við Varnarliðið, lögreglu og öryggisfulltrúa á Keflavíkurflugvelli er nauðsynlegt svo að æfingin heppnist vel.  Mörg sviðsettu viðfangsefnin eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli og í höfnum á Reykjanesi og eru því áhugaverð fyrir þá sem starfa að varnar- og öryggismálum á Íslandi.   Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar sér lögum samkvæmt um sprengjueyðingu á Íslandi og sér einnig alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið.  Að mati sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar er mjög mikilvægt að halda slíkar æfingar til að viðhalda þekkingu og þjálfun og fylgjast með nýjustu tækni á þessu sviði.  Æfingar eins og Northern Challenge veita sprengjusérfræðingum tækifæri til að starfa við aðstæður sem eru eins raunverulegar og frekast er unnt, prófa tæki og tækni og læra hver af öðrum.    Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Borgarísjakar á reki úti fyrir Norðurlandi

Fimmtudagur 26. ágúst 2004. Áhöfn TF-SYN, Fokker-flugvélar Landhelgisgæslunnar, sá nokkra borgarísjaka á reki úti fyrir Norðurlandi þegar flugvélin var í eftirlitsflugi í gær. Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók meðfylgjandi mynd af jakanum sem var næstur landi en hann var skammt norður af Siglunesi.  Siglufjörður er í baksýn. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Sameiginleg björgunaræfing varðskipsins Ægis og þyrlunnar TF-LIF

Fimmtudagur 26. ágúst 2004.Eins og gefur að skilja eru björgunaræfingar fastur liður í starfsemi Landhelgisgæslunnar.  Áhafnir varðskipa og þyrla Landhelgisgæslunnar æfa reglulega sjóbjörgun.  Þá fara varðskipsmenn í björgunarbát og þyrlan flýgur yfir og sigmaður sækir félaga sína úr björgunarbátnum.  Einnig fara varðskipsmenn beint í sjóinn og þyrlan sækir þá og skilar um borð í varðskipið aftur.  Þessar björgunaræfingar fara bæði fram í dagsbirtu og að nóttu til.  Í myrkri notar áhöfn þyrlunnar nætursjónauka. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar tekur einnig þátt í slíkum æfingum með Slysavarnarskóla sjómanna.  Í einstaka tilfellum taka áhafnir varnarliðsþyrla einnig þátt í æfingunum.   Meðfylgjandi eru myndir af nýlegri björgunaræfingu áhafnar varðskipsins Ægis með áhöfn þyrlunnar TF-LIF. Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður tók myndirnar úr léttbát varðskipsins og frá varðskipinu Ægi.  Í lok æfingarinnar var þyrluáhöfnin kölluð út vegna slyss.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Hér er TF-LIF yfir björgunarbát varðskipsins og sigmaður á leiðinni að bjarga félögum sínum úr honum.  Það er Auðunn F. Kristinsson stýrimaður sem er í hlutverki sigmannsins. Búið að ná einum manni upp úr bátnum.  Hásetarnir á Ægi eru í hlutverki skipbrotsmanna. Hér er verið að æfa björgun beint úr sjónum.  Sigmaðurinn (með gula hjálminn) kominn til hjálpar. Skipbrotsmönnum skilað um borð í varðskipið eftir vel heppnaða björgun. Hér er þyrluáhöfn Varnarliðsins að æfa aðflug að varðskipinu og TF-LIF sést í baksýn.   Hér er verið að skila skipbrotsmönnum um borð í varðskipið Ægi.  Læknir í áhöfn TF-LIF hafði beðið um borð í varðskipinu á meðan á björgunaræfingunni stóð og varð að hífa hann um borð í þyrluna í snatri vegna útkalls sem kom í lok æfingarinnar.  

Þrír menn björguðust er tveir bátar sukku í dag - Þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu

Fimmtudagur 26. ágúst 2004.Tilkynningarskyldan hafði samband  við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10:15 og tilkynnti að fiskibáturinn Björgvin ÍS-468 hefði sent neyðarskeyti er hann var staddur 15 sjómílur vestur af Dýrafirði.  Skömmu síðar var tilkynnt að báturinn væri að sökkva en tveir skipverjar hefðu bjargast um borð í gúmmíbát.  Þeim var síðan bjargað úr gúmmíbátnum um borð í bátinn Steinunni ÍS-817.  Björgvin ÍS-468 sökk kl. 10:50. Um kl. 15:40 lét Tilkynningarskyldan stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vita að leki væri kominn að fiskibátnum Fjarka ÍS-44 um 8 sjómílur suð-austur af Gjögri á Húnaflóa.  Þrjár trillur voru skammt frá og voru þær beðnar að halda til Fjarka.  Tilkynningarskyldan lét síðan vita kl. 16 að talið væri að báturinn væri sokkinn. Þá voru tveir bátar rétt ókomnir að Fjarka.  Þyrla var sett í viðbragðsstöðu að beiðni lögreglunnar á Hólmavík en ekki kom til þess að hún færi í loftið.  Einn skipverji var um borð í Fjarka og var honum bjargað í nærstaddan bát.Eins og fram hefur komið í fréttum fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar neyðarskeyti um gervihnött um hádegisbilið í gær og fór þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, til leitar kl. 14:40.   Upplýsingar bárust kl. 17:05 um að skipaskoðunarmaður í Stykkishólmi hefði verði að prófa neyðarsendi inni í einangruðum skáp í fyrirtæki þar í bæ um svipað leyti og neyðarskeytin bárust.  Óskað var eftir að sá sendir yrði aftur settur í gang til að kanna hvort sendingar bærust frá honum og reyndist svo vera.  Þá var tekin ákvörðun um að hætta leit enda benti ekkert til þess að bátur væri í neyð á svæðinu.  TF-LIF lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 17:40.   Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd Jón Svavarsson: Þessi mynd var tekin úr Stykkishólmi er verið var að leita að neyðarsendi í gær. 

Fjörutíu og tveir varðskipsnemar hafa verið hjá Landhelgisgæslunni í sumar

Miðvikudagur 25. ágúst 2004. Landhelgisgæslan í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga hefur boðið nemendum 10. bekkja grunnskólanna að fara sem nemar í eina ferð með varðskipi yfir sumartímann.  Að jafnaði fara sex nemar í hverja ferð. Í sumar hafa fjörutíu og tveir varðskipsnemar stundað nám og störf´á varðskipunum Ægi og Tý.Áður en nemarnir halda til hafs fara þeir í kynnisferð um aðrar starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar.  Þar er helst að nefna höfuðstöðvarnar á Seljavegi 32 þar sem skrifstofan, stjórnstöðin, sprengjudeildin, sjómælingadeildin (Sjómælingar Íslands), varðskipatæknideildin  og lagerinn eru til húsa. Einnig er farið út á Reykjavíkurflugvöll þar sem flugdeildin og flugtæknideildin eru staðsettar. Varðskipsnemar ganga í öll störf um borð í varðskipunum.  Þeir standa vaktir í brú, vél, eldhúsi og á þilfari. Reynt er að hafa það fyrirkomulag að þeir kynnist sem flestum störfum um borð og eru þeir því 3 daga á hverri vaktstöð. Þegar varðskipsmenn fara í eftirlitsferðir um borð í fiskiskip fær yfirleitt einn varðskipsnemi að fylgjast með.Skipherrar á varðskipunum hafa góða reynslu af varðskipsnemunum og eru ánægðir með að geta með þessu móti kynnt unglingum störfin um borð í þeirri von að einhverjir þeirra skili sér til starfa seinna meir.  Sjá meðfylgjandi myndir sem Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður tók af varðskipsnemum í sumar.Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd/JPÁ:  Már Nikulás Ágústsson fægir skipsbjölluna í brúnni á varðskipinu Ægi. Mynd/JPÁ:  Varðskipsnemar á Tý: Eyþór Björnsson,  Kópavogi, Eyþór Snorrason, Reykjavík, Jóhann I. Hannesson, Njarðvík, Gísli Líndal Karvelsson, Akranesi, Ægir Ægisson, Ólafsvík, Róbert Sædal Geirsson, Njarðvík.   Varðskipsnemar um borð í léttbát varðskipsins Ægis ásamt Hreggviði Símonarsyni stýrimanni er léttbáturinn fylgdi sundkonunni Viktoríu Áskelsdóttur á sundi hennar á Breiðafirði í sumar.

Samstarf við Landmælingar Íslands - endurmæling á grunnstöðvaneti

Föstudagur 20. ágúst 2004. Í ágústmánuði hafa Landmælingar Íslands í samvinnu við aðrar ríkisstofnanir staðið fyrir endurmælingu grunnstöðvanetsins.  Markmiðið er að útvega fullgilda og áreiðanlega undirstöðu fyrir allar mælingar hvort sem er á vegum hins opinbera eða einkaaðila eins og fram kemur á heimasíðu Landmælinga Íslands.  Vegna flekareks Evrópu- og Ameríkuflekanna og jarðskorpuhreyfinga er nauðsynlegt að endurmæla með reglulegu millibili.   Landhelgisgæslan tók þátt í verkefninu með því að flytja mælingamenn með þyrlu á afskekkta staði á Vestfjörðum.  Einnig tók starfsmaður sjómælingadeildar, Hjördís Linda Jónsdóttir, þátt í mælingunum frá 3.-14. ágúst og hafði til afnota bifreið sjómælingadeildar (Sjómælinga Íslands).  Hjördís fór m.a. til Grímseyjar, í Jökulheima, Vestmannaeyjar og Flatey. Að hennar sögn var þetta afskaplega spennandi og lærdómsríkt verkefni og verður gaman að sjá niðurstöður mælinganna þegar þær verða birtar.    Á meðfylgjandi myndum má sjá Hjördísi Lindu við sjómælingabílinn í Jökulheimum og sést Vatnajökull í baksýn.  Einnig er mynd af mælingamönnum að stilla upp tækjum sínum á Hornströndum en áhöfn TF-SYN flutti þá þangað. Heyrst hefur að áhöfnin hafi komið berjablá úr leiðangrinum enda var krökkt af berjum á svæðinu.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.  

Fjallað um Landhelgisgæsluna í heimildarmynd um heri á Norðurlöndum

Miðvikudagur 18. ágúst 2004. Tveir sjónvarpsmenn frá danska hernum hafa verið hér á landi undanfarna daga við tökur á heimildamynd um heri á Norðurlöndum.  Þeir hafa m.a. heimsótt Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Landhelgisgæsluna.  Heimildarmyndin verður í fjórum þáttum og verður sýnd á Discovery Channel frá september – desember nk, einn þáttur í hverjum mánuði.  Sjónvarpsmaðurinn Lars Bøgh Vinther sér um viðtöl og þáttagerð og með honum er kvikmyndatökumaðurinn Jeppe Wahlstrøm. Lars og Jeppe tóku m.a. viðtöl við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar og fræddust um störf þeirra hér heima og í Írak.  Einnig fóru þeir með þyrlu Landhelgisgæslunnar er áhöfn hennar æfði fjallahífingu í klettunum fyrir ofan bæinn Stardal sl. mánudag.  Lars og Jeppe halda af landi brott á morgun. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd DS: Jeppe og Lars fyrir utan flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Útkallsbifreið sprengjudeildar í baksýn. Mynd/Jón Erlendsson flugvirki: Jeppe kvikmyndar varðskip í Reykjavíkurhöfn úr TF-LIF eftir vel heppnaða æfingu í fjallahífingum. Mynd DS:  Hér sést glitta í Auðunn F. Kristinsson sigmann /stýrimann í klettunum fyrir ofan Stardal þar sem æfing í fjallahífingum fór fram.

Leitað að handfærabátnum Smára HF-122

Þriðjudagur 17. ágúst 2004. Reykjavíkurradíó sendi út tilkynningu til skipa á norðanverðum Faxaflóa um kl. 15:27 í dag vegna handfærabátsins Smára  HF-122 sem hafði dottið út úr sjálfvirka tilkynningarskyldukerfinu. Tilkynningarskyldan hafði þá árangurslaust reynt að ná sambandi við bátinn.  Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út og fór TF-SIF í loftið kl. 16:19. Skömmu síðar fékk stjórnstöð Landhelgisgæslunnar tilkynningu um að báturinn hefði komið í leitirnar og sneri þyrlan þá aftur til Reykjavíkurflugvallar. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Strand hvalaskoðunarbátsins Náttfara frá Húsavík

Föstudagur 13. ágúst 2004. Hvalaskoðunarbátinn Náttfara frá Húsavík tók niðri á malarrifi við norðanverða Lundey á Skjálfanda um kvöldmatarleytið í gærkvöldi.  Um borð í bátnum voru 77 farþegar og fjögurra manna áhöfn. Sjómælingabátur Landhelgisgæslunnar, Baldur, var staddur á Tjörnesgrunni og varðskipið Týr var einnig við eftirlitsstörf út af Norð-Austurlandi.  Áhafnir beggja skipanna heyrðu óljós talstöðvarsamskipti um að skip ætti í erfiðleikum á Skjálfandaflóa en ekki kom skýrt fram hvar eða hvaða bát var um að ræða.  Í framhaldinu bað skipherra varðskipsins stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að kanna hvort slys hefði orðið á svæðinu.Þegar áhöfn sjómælingabátsins Baldurs fékk nánari upplýsingar um málið var bátnum siglt í átt að Lundey.  Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar skipstjóra á Baldri kom ósk frá björgunarsveitinni Garðari á Húsavík um að sjómælingabáturinn tæki að sér að draga Náttfara á flot og útvega dráttartóg.  Í áhöfn Baldurs var kafari og var einnig óskað aðstoðar hans ef á þyrfti að halda.  Varðskipið Týr sigldi einnig á fullri ferð í átt að Náttfara og þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF, sem var í verkefni á Hornströndum, var einnig sett í viðbragðsstöðu.Er sjómælingabáturinn Baldur kom að Náttfara hafði náðst að koma hvalaskoðunarbátnum á flot á flóðinu og reyndist því ekki þörf á aðstoð. Varðskipið var þá enn nokkuð fjarri Lundey og sneri það til fyrri starfa auk þess sem þyrlan var afturkölluð. Á meðan á björgunaraðgerðum stóð var stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í sambandi við hvalaskoðunarbátinn og lagði m.a. til að allir farþegar yrðu fluttir frá borði áður en reynt yrði að draga hvalaskoðunarbátinn á flot.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Útkall vegna eldsvoða í bát

Miðvikudagur 11. ágúst 2004 Maður bjargaðist um borð í nærstaddan bát eftir að eldsvoði kom upp í bát hans um hádegisbilið í dag.Varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar heyrði kl. 12:30 á rás 16 að svartur reykur sæist 7 sjómílur vestur af Garðskaga.  Í kjölfarið var þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar kölluð út.  Varnarliðið var með þyrlu í flugtaki þegar tilkynningin barst og hélt rakleiðis á staðinn að beiðni Landhelgisgæslunnar. Skömmu síðar, kl. 12:42, barst tilkynning frá neta- og handfærabátnum Fúsa SH-162 um að reykurinn stafaði frá bát sem eldur hafi komið upp í og að einn maður væri í sjónum í flotgalla. Um var að ræða fiskibátinn Eyrarröst KE-25 sem gerður er út frá Keflavík.Þegar varnarliðsþyrlan kom á staðinn hafði manninum verið bjargað um borð í Fúsa sem sá um að koma honum undir læknis hendur.  Varnarliðsþyrlan sneri þá við og þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig afturkölluð.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu djúpsprengju sem kom í troll togarans Þórunnar Sveinsdóttur VE-401

Miðvikudagur 11. ágúst 2004 Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu í gær djúpsprengju sem kom í troll togarans Þórunnar Sveinsdóttur. Skipstjórinn á Þórunni Sveinsdóttur hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10 í gærmorgun og óskaði eftir aðstoð.  Torkennilegur hlutur hafði komið í troll togarans og grunaði skipstjórann að um sprengju væri að ræða.  Skipið var þá statt í grennd við Vestmannaeyjar.  Skipstjórinn fékk strax samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar sem töldu af lýsingum að dæma að hluturinn væri bresk djúpsprengja af gerðinni MK 7.  Slíkar sprengjur innihalda 147 kg. af TNT sprengiefni.  Sprengjusérfræðingarnir fengu far með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, til Vestmannaeyja og voru komnir þangað kl. 15:30.  Togarinn var þá staddur rétt fyrir utan höfnina í Vestmannaeyjum.Sprengjusérfræðingarnir fengu far út í togarann með björgunarbátnum Þór.  Við nánari athugun kom í ljós að um djúpsprengju var að ræða, sömu gerðar og talið hafði verið.  Hún var án forsprengju og kveikjubúnaðar og þess vegna var talið óhætt að skipið kæmi í höfn.  Sprengjan var flutt frá borði með aðstoð lögreglu og henni eytt á afviknum stað. Djúpsprengjur voru voru notaðar til að granda kafbátum í seinni heimstyrjöldinni.  Hægt var að varpa þeim frá bæði skipum og flugvélum.  Í flestum tilfellum kom vatnsþrýstingur sprengingu af stað.  Sprengjur af gerðinni MK 7 eru enn notaðar af sjóherjum nokkurra ríkja. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.   Mynd:  Djúpsprengja af gerðinni MK 7.

Sjúkraflug í Landmannalaugar vegna slasaðrar ferðakonu

Laugardagur 7. ágúst 2004.   Neyðarlínan hafði samband við Landhelgisgæsluna kl. 20:54 og tilkynnti um ökklabrotna þýska konu í skálanum í Landmannalaugum. Óskað var eftir aðstoð þyrlu til að flytja hana á sjúkrahús þar sem ástand vega þótti of slæmt til að flytja hana landleiðina.  Eftir samráð við lækni í áhöfn TF-SIF var afráðið að sækja konuna.    TF-SIF fór í loftið kl. 21:26. Lélegt skyggni og vindasamt var á leiðinni.  Lent var við skálann í Landmannalaugum kl. 22:14 og haldið þaðan korteri síðar.  Þyrlan lenti síðan við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi kl. 23:10.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Eyðing sprengiefna á Tjörnesi

Föstudagur 6. ágúst 2004.   Lögreglan á Þórshöfn hafði samband við Landhelgisgæsluna um kl. 21:40 í gærkvöldi og óskaði eftir aðstoð sprengjusérfræðinga.  Fundist hafði sprengiefni, hugsanlega með hvellhettum, í hamri á Tjörnesi nærri þjóðveginum.   Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 23 og flaug með sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar beint á staðinn.  Lögreglan á Húsavík og Þórshöfn beið sprengjusérfræðinganna og benti þeim á staðinn þar sem sprengiefnið var.  Lögreglan lokaði þjóðveginum á nokkur hundruð metra kafla í báðar áttir á meðan sprengjusérfræðingarnir athöfnuðu sig.   Að sögn sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar var sprengiefnið sem fannst í plastslöngum ásamt tundurþræði.  Sprengiefnið var í góðu ásigkomulagi en hafði að hluta til aðskilist sem varð til þess að sprengifimur vökvi lak út úr slöngunum og storknaði.   Sprengiefnið fannst í 6 borholum í berginu.  Sumt var sjáanlegt en annað var mismunandi langt inni í berginu.   Það fannst á 30 metra svæði í hamrinum sem er 5 metra frá þjóðveginum.   Ekki var mögulegt að fjarlægja sprengiefnið úr borholunum þar sem óttast var að sprengiefnið hefði aðskilist að hluta til vegna efnabreytinga og ylli þess vegna sprengingu ef farið væri að hreyfa við því.  Einnig var hætta á að sprenging hlytist ef tundurþræðirnir yrðu fyrir hnjaski.  Þeir innihalda sprengiefnið Pentrit sem er mjög viðkvæmt og öflugt.   Ákveðið var að eyða öllum sprengjuhleðslunum með því að setja auka sprengiefni við allar holurnar og sprengja það samtímis.  Þannig var tryggt að allt sprengiefnið, sem hafði verið sett inn í bergið, myndi eyðast.   Aðgerðin heppnaðist vel og var lokið kl. 3:30 í nótt.  Áætlað er að sprengiefnið sem var falið í berginu hafi verið alls 25 kíló.  Talið er líklegt að það hafi verið sett í bergið vegna vegaframkvæmda og ekki sprungið af einhverjum ástæðum, jafnvel þar sem gleymst hafi að tengja það.   Sjá meðfylgjandi myndir sem voru teknar af sprengjusérfræðingi að störfum í nótt og sprengiefninu sem fannst í berginu.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.        
Síða 1 af 2