Fréttayfirlit: desember 2004

Síðasti vinnudagur Hafsteins forstjóra

Föstudagur 31. desember 2004.Á meðfylgjandi mynd er Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri fyrir utan höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar að Seljavegi 32 kl. 15 í dag, gamlársdag, er hann lauk síðasta vinnudegi sínum hjá stofnuninni. Hafsteinn fékk blóm frá samstarfsfélögum sínum í tilefni dagsins.Hafsteinn hefur að eigin ósk skipt um starf innan ríkisgeirans og verður nú skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu þar sem hann mun einbeita sér að málum er tengjast hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðannna.Hafsteinn hefur verið forstjóri Landhelgisgæslunnar sl. 11 ár en hann var skipaður í embættið .... ... 19....     

Þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu vegna bílslyss

Fimmtudagur 30. desember 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 13:54 og lét vita af bílslysi á Holtavörðuheiði en þar hafði bíll ekið aftan á annan bíl.  Barnshafandi kona var í öðrum bílnum og var sjúkrabíll með lækni og ljósmóður á leiðinni.  Beðið var um þyrlu í viðbragðsstöðu.  Læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var í sambandi við lækninn í sjúkrabílnum og var talið rétt, með hliðsjón af upplýsingum um líðan konunnar, að bíða með að senda þyrluna af stað.  Þyrluáhöfn var samt sem áður í viðbragðsstöðu þar til sjúkrabíllinn kom á staðinn og læknirinn hafði metið ástand konunnar.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Hafsteinn Hafsteinsson forstjóri kveður starfsfólkið

Fimmtudagur 30. desember 2004. Síðasti vinnudagur Hafsteins Hafsteinssonar forstjóra er á morgun, gamlársdag.  Þar sem margir verða í fríi á morgun kom starfsfólkið í höfuðstöðvunum á Seljavegi, varðskýli og á flugvelli til að kveðja Hafstein.  Áður hafði Hafsteinn farið um borð í varðskipin og kvatt áhafnir þeirra.  Meðfylgjandi myndir tók Árni Vésteinsson deildarstjóri í dag er Hafsteinn flutti stutta kveðjuræðu.

Rauð blikkljós í bifreiðum starfsmanna þyrluáhafna Landhelgisgæslunnar gefast vel

Mánudagur 27. desember 2004.Mikilvægt er fyrir þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar að komast greiðlega leiðar sinnar út á Reykjavíkurflugvöll í útköllum enda getur verið lífsspursmál í sumum tilfellum hversu fljótt þyrlan kemst á slysstað.  Á heimasíðu Landhelgisgæslunnar var sagt frá því 30. september sl. að starfsmenn þyrluáhafna hefðu fengið rauð blikkljós í bíla sína til að auðvelda þeim að komast áfram í umferðinni þegar þeir eru á leið í bráðaútkall (ALFA-útkall).  Sjá slóðina: http://lhg.is/displayer.asp?cat_id=4&module_id=220&element_id=1591 Rauðu blikkljósin eru á sólskyggni farþegamegin í bílum starfsmannanna.  Friðrik Höskuldsson stýrimaður í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar segir að reynslan af ljósunum sé mjög góð.  Sem dæmi nefnir hann að vikuna 13.-20. desember var þyrluáhöfn í þrígang kölluð út með bráðaútkalli en það þýðir að um líf eða dauða sé að tefla.  Þessi útköll voru á þeim tíma dags sem umferð í Reykjavík er mikil, eitt þeirra t.d. um kl. 16:30.  Friðrik notaði blikkljósin á leið sinni út á flugvöll og segir að ökumenn hafi tekið fullt tillit til sín, vikið fyrir sér og jafnvel stöðvað úti í kanti svo hann kæmist leiðar sinnar.  Þá hafi hann einnig notið aðstoðar lögreglunnar til að komast áfram í umferðinni.  Friðrik vill koma á framfæri þakklæti til bílstjóra á höfuðborgarsvæðinu vegna tillitsemi þeirra og segir að félagar hans í þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar hafi svipaða sögu að segja.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Georg Kr. Lárusson skipaður forstjóri Landhelgisgæslunnar

Miðvikudagur 22. desember 2004. Dómsmálaráðuneytið gaf síðdegis í dag út svohljóðandi fréttatilkynningu: Dómsmálaráðherra hefur í dag skipað Georg Kr. Lárusson, forstjóra Útlendingastofnunar, í embætti forstjóra Landhelgisgæslu Íslands frá og með 1. janúar nk.  

Útkall vegna dragnótarbátsins Sigurvins

Mánudagur 20. desember 2004. Dragnótarbáturinn Sigurvin SH-119 varð vélarvana 0.6 sjómílur vestur af Reykjanesi um kl. 13:55 í dag.  Um borð voru fjórir menn og hafði skipstjórinn samband við Reykjavíkurradíó og óskaði eftir aðstoð. Þyrla Landhelgisgæslunnar og þyrlur Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli voru þegar kallaðar út ásamt björgunarskipum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.  Varðskipið Týr var einnig nærstatt og hélt þegar í átt til Sigurvins. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, fór í loftið kl. 14:19 og var að koma á svæðið þegar skipstjóri Sigurvins tilkynnti að tekist hefði að koma vélinni í gang.  Það var um kl. 14:30.  Aðstoðarbeiðni var þá afturkölluð og hættuástandi aflýst. Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Jóla- og nýársfagnaður Landhelgisgæslunnar

Sunnudagur 19. desember 2004. Jóla- og nýársfagnaður Landhelgisgæslunnar var haldinn í Sunnusal Hótel Sögu í gærkvöldi. Sjá meðfylgjandi myndir sem Baldur Snæland tók við það tækifæri. Voðabandið í miklu stuði. Hafsteinn Hafsteinsson, sem aðdáandi Megasar nr. 1, var beðinn að syngja ,,Gamli sorrý gráni" og ,,Spáðu í mig" með Voðabandinu og gerði hann það með glæsibrag. Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari lék þrjú lög af stakri snilld. Konurnar hjá Landhelgisgæslunni afhentu Hafsteini vinaband en á því héngu gjafir sem veganesti frá þeim er hann hættir störfum.  Margt var á bandinu m.a. vasaklútur svo hann gæti þerrað tárin er hann færi í burtu frá þeim, lítill fornbíll, nestisbox, axlabönd, rauðar varir, expresso kaffibolli, engill, barnabók eftir Madonnu, skyrdolla, vindill og kleina svo eitthvað sé nefnt. Nokkrir góðir úr áhöfn varðskipsins Ægis.  Þeir afhentu Halldóri Nellett skipherra viðurkenningu fyrir að mæla mest af fiski en samkvæmt könnun þeirra átti hann vinninginn gagnvart Tý á þessu ári.  

Níu sóttu um stöðu forstjóra Landhelgisgæslu Íslands

Föstudagur 17. desember 2004. Dómsmálaráðuneytið birti eftirfarandi fréttatilkynningu um hádegisbilið í dag: Embætti forstjóra Landhelgisgæslu Íslands hefur verið auglýst laust til umsóknar. Umsóknarfrestur rann út þann 15. desember 2004. Níu sóttu um embættið, þeir eru: Ásgrímur Lárus Ásgrímsson, deildarstjóri Friðrik Jónsson, sendiráðunautur Georg Lárusson, forstjóri Útlendingastofnunar Halldór Ólafur Zoëga, forstöðumaður Kristján Björn Garðarsson, forstjóri Lárus Jóhannsson, frv. yfirdeildarstjóri Magnús Gunnarsson, fjármálastjóri Pálmi Jónsson, stýrimaður Rafn Sigurgeir Sigurðsson, sjómaður.  

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti hjartveikan sjómann á sjúkrahús

Föstudagur 17. desember 2004. Neyðarlínan hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um kl. 11:15 og tilkynnti um hjartveikan mann um borð í bátnum Sigrúnu RE-303 en báturinn var þá á Faxaflóa, 14 sjómílur frá Reykjavík. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út, með bráðaútkalli, og fór TF-LIF í loftið kl. 11:34.  Er þyrlan kom að bátnum fór sigmaður niður í hann og gekk vel að hífa sjúklinginn um borð í þyrluna.  TF-LIF lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús kl. 12:04.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr.

Fjölgeislamælir notaður við öryggisleit í Reykjavíkurhöfn

Miðvikudagur 15. desember 2004.Sprengjudeild og sjómælingadeild Landhelgisgæslunnar héldu sameiginlega æfingu 10. desember sl. í tilefni af komu skipa úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins daginn eftir.  Verið var að æfa neðansjávarleit við hafnarbakkana í Vatnagörðum þar sem fyrirhugað var að skipin leggðust að bryggju.  Hafnaryfirvöld heimiluðu æfinguna.   Að sögn Ásgríms Ásgrímssonar deildarstjóra mælingadeildar sigldu sjómælingamenn, sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar á sjómælingabát Landhelgisgæslunnar, Baldri, inn í Vatnagarða.  Þar notaði áhöfn bátsins fjölgeislamæli til að rannsaka hafsbotninnn við hafnarbakkana og út frá þeim.  Fjölgeislamælirinn var notaður til að spara tíma við köfun.  Mælirinn nam tvær þústir sem voru ekki í samræmi við umhverfið neðansjávar og gátu kafarar þá farið beint niður á staðinn, sem var á um 9 metra dýpi, til að kanna hvað þar væri að finna.   Í ljós kom að þetta voru tvær dekkjasamstæður sem venjulega eru notaðar sem fríholt við hafnarbakkana. Kafarar og áhöfn Baldurs náðu að koma böndum í dekkin og síðan voru þau hífð upp á bryggjuna því þau geta skemmt skrúfubúnað djúpristra skipa.   Þetta sýnir hversu fjölbreytt verkefni er hægt að vinna með fjölgeislamælinum.  Hann nýtist ekki eingöngu við dýptarmælingar heldur einnig við neðansjávarleit af ýmsu tagi t.d. í öryggisskyni, vegna skipskaðarannsókna, neðansjávarskoðunar á hafnarmannvirkjum og fl.    Landhelgisgæslan hefur haft fjölgeislamælinn til umráða undanfarin ár vegna samstarfssamnings við Hafrannsóknarstofnun bandaríska sjóhersins.  Stefnt er að því að Landhelgisgæslan eignist slíkan mæli.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.     Myndir.  Önnur dekkjasamstæðan hífð með krana sjómælingabátsins Baldurs. Eins og sjá má er dekkjasamstæðan ekki mikil um sig en sást þó greinilega í fjölgeislamælinum þó svo að hún væri að hluta til grafin í leðju á botninum.

Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar eyðir sprengjum fyrir Varnarliðið

Miðvikudagur 15. desember 2004. Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fékk það verkefni í gær að eyða 500 handsprengjum fyrir Varnarliðið.  Handsprengjurnar höfðu skemmst í geymslum Varnarliðsins og þurfti að eyða þeim.  Það var gert með tveimur sprengingum en alls var rúmlega 150 kílóum af sprengiefni eytt.  Eins og kunnugt er gerðu Landhelgisgæslan og Varnarliðið samning um að sprengjudeild Landhelgisgæslunnar sæi alfarið um sprengjueyðingu fyrir Varnarliðið fyrir rúmlega 4 árum síðan. Að því best er vitað er það einsdæmi að bandaríski herinn sæki slíka þjónustu til borgaralegrar stofnunar.Dagmar Sigurðardóttirfjölmiðlaftr. Mynd Adrian King sprengjusérfræðingur: Sigurður Ásgrímsson sprengjusérfræðingur með hluta sprengiefnisins sem var eytt fyrir Varnarliðið.

Þyrla sótti veikan sjómann í togarann Guðmund í Nesi

Miðvikudagur 15. desember 2004.Skipstjórinn á togaranum Guðmundi í Nesi hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um kl. 6:30 í morgun og óskaði eftir þyrlu til að sækja veikan sjómann. Togarinn var þá staddur 100 sjómílur norðvestur af Snæfellsnesi.  Áhöfnin hafði reynt að hlúa að manninum samkvæmt leiðbeiningum læknis en það bar ekki tilætlaðan árangur.   Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út og hafði læknir í áhöfninni samband við skipstjóra togarans.  Eftir að læknirinn hafði fengið allar upplýsingar um ástand mannsins var afráðið að sækja hann.  TF-LIF fór í loftið kl. 7:35 og kom að skipinu um níuleytið.  Aðeins tók nokkrar mínútur að hífa manninn um borð í þyrluna og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli um kl. 9:20.  Þar beið sjúkrabíll sem flutti manninn á sjúkrahús.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Flugrekstrarhandbók Landhelgisgæslunnar samþykkt

Þriðjudagur 14. desember 2004. Flugöryggissvið flugmálastjórnar samþykkti í dag flugrekstrarhandbók Landhelgisgæslunnar sem hefur verið í smíðum sl. þrjú ár.  Að sögn Björns Brekkan flugrekstrarstjóra Landhelgisgæslunnar eru í flugrekstrarhandbók m.a. verklagsreglur um starfsemi og rekstur flugdeildar, vinnu- og hvíldartíma og þjálfun áhafna.  Að hans mati er þetta stór áfangi í átt til aukins öryggis í rekstri flugdeildar stofnunarinnar. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.

Jólaball Landhelgisgæslunnar

Mánudagur 13. desember 2004. Starfsmannafélag Landhelgisgæslunnar stóð fyrir jólatrésskemmtun í flugskýli stofnunarinnar við Reykjavíkurflugvöll sl. laugardag frá kl. 17-19.  Starfsmenn fjölmenntu þar ásamt börnum, vinum og vandamönnum. Það vakti mikla athygli nú eins og áður þegar Stekkjastaur og Gáttaþefur komu í þyrlu að flugskýlinu og í þetta sinnið höfðu þeir náð að góma Birgittu Haukdal söngkonu með sér í flugferðina. Stekkjastaur var flugstjóri. Gáttaþefur og Birgitta fóru með gamanmál og sungu fyrir börnin.  Síðan fengu þau nammipoka frá jólasveinunum og dönsuðu í kringum jólatréð.  Að síðustu var boðið upp á pizzur og gos í kvöldmatinn. Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr. Mynd DS:  Gáttaþefur og Birgitta koma hlaupandi frá þyrlunni. Það var farið að dimma svo ekki náðust góðar myndir af lendingunni. Mynd DS:  Börnin hópuðust í dyr flugskýlisins og tóku á móti Birgittu og Gáttaþefi með mikilli eftirvæntingu.  Stekkjastaur kom síðar þegar hann hafði gengið frá þyrlunni. Mynd DS: Birgitta Haukdal og Gáttaþefur fóru á kostum. Vart mátti á milli sjá hvort þeirra hafði meira aðdráttarafl fyrir ungu kynslóðina. Mynd DS: Hafsteinn forstjóri með afabörnin Hafstein og Önnu Katrínu til hægri. Mynd: María Norðdahl: Allir eru litlir í jólasveinalandi. Mynd DS:  Skjólstæðingar Stekkjastaurs ábúðarfullir á svipinn enda eins gott að haga sér vel til að fá nammi. Mynd DS:  Þessi litla stúlka var dálítið hrædd við Stekkjastaur. Mynd DS: Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á Tý með afastrák. Mynd DS: Tinni hans Kristjáns Þ. Jónssonar yfirmanns gæsluframkvæmda fór í jólafötin en þurfti að fara í megrun fyrst til að passa í þau því hann var búinn að borða svo mikið af kökum. 

Slasaður drengur sóttur með þyrlu

Mánudagur 13. desember 2004.   Neyðarlínan gaf stjórnstöð Landhelgisgæslunnar samband við lækni á Grundarfirði kl. 16:32 sem óskaði eftir þyrlu til að sækja þriggja ára gamlan dreng sem hafði slasast við að falla í hálku.    Áhöfn TF-LIF var þegar kölluð út og fór þyrlan í loftið kl. 17.   Drengurinn var sendur með sjúkrabíl í átt til Reykjavíkur og fór þyrlan til móts við hann.  TF-LIF lenti við Kaldármela þar sem drengurinn var fluttur úr sjúkrabílnum í þyrluna.   Þyrlan lenti við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi um kl. 18.   Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd LHG/ Friðrik Höskuldsson stýrimaður: TF-LIF

Börnin á Dvergasteini í jólaheimsókn hjá Landhelgisgæslunni

Föstudagur 10. desember 2004.   Landhelgisgæslan fékk skemmtilega heimsókn í morgun er nokkur börn af leikskólanum Dvergasteini komu og sungu fyrir forstjórann Hafstein Hafsteinsson og starfsfólkið á skrifstofunni.  Dvergasteinn er einmitt næsta hús við höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar á Seljavegi.    Börnin sungu jólalög og fengu djús og piparkökur að launum.  Þetta var hin mesta skemmtun og gladdi þá sem á hlýddu.  Dagmar Sigurðardóttir fjölmiðlaftr.   Mynd LHG: Hafsteinn forstjóri sýnir börnunum líkan af varðskipinu Þór.    
Síða 1 af 2