Fréttayfirlit: apríl 2009 (Síða 2)

Þyrla Landhelgisgæslunnar stóð bát að meíntum ólöglegum veiðum

EIR

Í gærdag stóð þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR dragnótabát að meintum ólöglegum veiðum.

Báturinn var að veiðum á svæði þar sem dragnótaveiðar eru ekki heimilar vestur af Sandgerði samkvæmt reglugerð um  um friðun hrygningarþorsks.

Öflugasta björgunar- og dráttarskip á Norðurslóðum

Vardskip_smidi_3D_teikning_2

Varðskipið Þór verður sjósett þann 29. apríl nk.

Nýtt varðskip fyrir Landhelgisgæsluna verður sjósett miðvikudaginn 29. apríl nk. í Asmar skipasmíðastöð sjóhersins í Chile. Verkið hefur gengið vel og allar kostnaðaráætlanir hafa hingað til staðist fullkomlega.  Samkvæmt smíðasamningi nemur kostnaður 30 milljónum evra.  Áætluð afhending skipsins er við upphaf næsta árs. 

Þyrlur Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu

TF_LIF_Odd_Stefan
Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru í dag settar í viðbragðsstöðu vegna tilkynningar um reyk í flugstjórnarklefa erlendrar farþegaþotu yfir Atlantshafi. Á þriðja hundrað manns voru um borð. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning frá Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík klukkan 13:55 um að farþegaflugvél í yfirflugi yfir Atlantshafi hafi verið snúið til Keflavíkurflugvallar þar sem flugmenn þotunnar hafi tilkynnt um reyk í flugstjórnarklefa.

TF-EIR í sjúkraflug NA af Hveravöllum

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR var kölluð út í sjúkraflug um kl. 18:30 í kvöld. Beiðnin barst frá skíðafólki sem var staðsett við Dúfnunesfell sem er um 6 km. NA af Hveravöllum. Hafði maður úr hópnum  fengið aðsvif og sjóntruflanir,. Mat læknir á þyrluvakt Landhelgisgæslunnar að ekki væri ráðlegt að bíða með læknisaðstoð. Var þetta annað útkall þyrlunnar í dag.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar í björgunaraðgerðum

Þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-EIR og TF-GNA voru kallaðar út kl. 12:59 í dag þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni frá Kristbjörgu HF-177 sem var vélarvana með fimmtán manns um borð um eina sjómílu suður af Krísuvíkurbjargi. Sunnanátt var á staðnum og rak bátinn í átt að berginu.

Við gefum ekki afslátt af öryggi

Gasflutningaskip_TF_LIF_13022008
Í mars sl. birtu flugstjórar Landhelgisgæslunnar faglegt mat sitt á getu flugdeildarinnar með tilliti til núverandi þyrlukosts, mönnunar og viðhalds. Erindi þetta var kynnt fjölmiðlum en þar er fjallað um drægni þyrlna miðað við mismunandi aðstæður og að gætt sé fyllsta öryggis. Mat flugstjóra Landhelgisgæslunnar gefur til kynna að þrátt fyrir samdrátt í rekstri flugdeildar er það ófrávíkjanlegt að enginn afsláttur verður gefinn á öryggismálum flugrekstrarins.

Bylting í öryggis- og björgunarmálum Íslendinga

Dash8_smidi_jun2008_2
Ný flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF kemur til landsins þann 9. júlí og er það nokkuð á undan áætlun. Smíði flugvélarinnar hefur gengið ævintýralega vel miðað við að þarna er á ferðinni fullkomnasta eftirlitsflugvél þessarar tegundar í heiminum. Vélin er af gerðinni Dash-8 Q300 og eru samskonar flugvélar notaðar hjá strandgæslum og eftirlits- og björgunaraðilum víða um heim.  Vélin verður afhent Landhelgisgæslunni til prófana þann 9. júní og er svo áætluð til landsins þann 9. júlí eins og áður segir.

Sprengjusérfræðingar LHG gera riffilsprengju óvirka

RiffSprengjan
Stjórnstöð barst kl. 18:10 beiðni frá Neyðarlínunni um að Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar yrði kölluð út vegna torkennilegs hlutar sem fannst á Hólmsheiði. Sá sem fann hlutinn tók hann með sér heim og bar fjölskyldumeðlimur kennsl á hann og taldi að um væri að ræða sprengju. Sérfræðingar sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar staðfestu grun hans en um er að ræða riffilhandsprengju frá seinni heimstyrjöldinni en á Hólmsheiði er gamalt heræfingasvæði.
Síða 2 af 2