Fréttayfirlit: júní 2009 (Síða 2)

Sjómannadagshelgi Ægis á Flateyri

Sjómannadagshelgi á Flateyri 2009 - 4

Föstudaginn 5. júní lagðist varðskipið Ægir að bryggju á Flateyri til að taka þátt í hátíðarhöldum helgarinnar. Strax um kvöldið æfði áhöfnin fyrir róðrakeppnina og var það eina æfingin sem tekin var. Á laugardeginum var farið í skemmtisiglingu með Flateyringa og nærsveitamenn, alls komu um 150 manns með og var almenn ánægja með þessa siglingu. Um kvöldið var skipherranum, yfirstýrimanni, 2. stýrimanni, yfirvélstjóra og 1. vélstjóra boðið í mat hjá Eyrarodda og sjómannadagsráði og var það mikil og góð veisla. Á sjálfan Sjómannadaginn tók áhöfn varðskipsins virkan þátt í hátíðarhöldunum, m.a. með ritningarlestri í hátíðarmessu, þátttöku í kappróðri, reipitogi í karlaflokki og kvennaflokki (Linda háseti keppti með kvennaliði Flateyrar) og sigruðu varðskipsmenn og konur í báðum flokkum. Einnig tók áhöfnin þátt í flekahlaupi og koddaslag. Varðskipsmenn/kona unnu í róðrakeppninni og reipitogi. Góður rómur var gerður að aðkomu varðskipsmanna meðal bæjarbúa og var áhöfn Ægis hæst ánægð með hátíðarhöld helgarinnar og kunna Flateyringum góðar þakkir.

Mikil ánægja með samvinnu Landhelgisgæslu Íslands og norsku strandgæslunnar

Á sjómannadaginn var Georg Kr. Lárussyni forstjóra Harstad2Landhelgisgæslu Íslands boðið í heimsókn um borð í norska varðskipið Harstad ásamt Rögnu Árnadóttur dóms- og kirkjumálaráðherra og Þórunni J. Hafstein settum ráðuneytisstjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Skipherra Harstad tók á móti gestunum ásamt áhöfn sinni og snæddur var hádegisverður um borð. Í erindi sem Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar flutti við tilefnið ræddi hann um samstarf Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar og mikilvægi þess að starfsmenn vinni saman á grundvelli samstarfssamnings sem undirritaður var í október síðastliðnum, Að þjóðirnar að skiptist á upplýsingum og vinni sameiginlega að þjálfun á því víðfema hafsvæði sem N-Atlantshafið er.

Sjómenn til hamingju með daginn!

Í dag var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Landhelgisgæslan tók þátt í hátíðahöldunum með ýmsum hætti. Áhöfn varðskipsins Týs stóð heiðursvörð ásamt áhöfn norska varðskipsins Harstad við athöfn sem haldin var við Minningaröldur Sjómannadagsins við Fossvogskapellu í Fossvogskirkjugarði. Minnst var sérstaklega á að síðastliðið ár var hið fyrsta í Íslandssögunni sem engin fórst í sjávarháska.

Fjölnota varðskip öflug björgunartæki til sjávar - Varðskipið Týr og norska varðskipið Harstad æfa saman á Faxaflóa

Norska varðskipið Harstad, varðskipið Týr og þyrla Tyr_Harstad_aefing6Landhelgisgæslunnar TF-LÍF voru í dag við björgunaræfingar á Faxaflóa. Harstad er hér á landi í boði Landhelgisgæslunnar en skipið er nær systurskip íslenska varðskipsins Þórs sem er í smíðum í Chile. Harstad og Þór eru öflug björgunar- og dráttarskip og var afar gagnlegt fyrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem og starfsmenn ýmissa innlendra samstarfsstofnana að fylgjast með hvernig búnaður varðskipsins starfar. Ekki fer á milli mála að varðskip eru þau björgunartæki sem öflugust eru til sjávar.

Varðskipið Týr losar togarann Sóleyju Sigurjóns af strandstað ásamt norska varðskipinu Harstad

Mikilvægi varðskipa sem björgunartækja og ekki síður SoleyStrand1mikilvægi þess fyrir Landhelgisgæsluna að hafa yfir öflugu björgunar- og dráttarskipi að ráða sýndi sig berlega í eftirmiðdaginn þegar varðskipið Týr dró togarann Sóley Sigurjóns af strandstað í innsiglingunni í Sandgerði með aðstoð norska varðskipsins Harstad. Norska varðskipið Harstad er statt er hér við land á grundvelli samstarfssamnings við Landhelgisgæsluna. Einnig voru dráttarbátar á staðnum til að halda við togarann ásamt björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Hannesi Þ. Hafstein.

Sóley Sigurjóns GK-200 strandar við Sandgerði. Íslenskt og norskt varðskip verða til taks.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í morgun kl. 05:28 Tyr,_1421atilkynning um að togarinn Sóley Sigurjóns GK-200 hafi strandað í innsiglingunni til Sandgerðis. Varðskipið Týr var kallað á staðinn og kom að strandstað kl. 06:25. Skipið sat fast og hallaði mikið eða 35° á stjórnborða. Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Hannes Þ. Hafstein var einnig kallað á staðinn. Fimm manns frá skipinu voru ferjaðir í land og engin hætta á ferðum. Norska varðskipið Harstad er á leið á staðinn og verður til taks ef á þarf að halda.

TF-LÍF sækir veikan sjómann um borð í togarann Polar Nanoq

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF var kölluð út kl. 22:50 í Gasflutningaskip_TF_LIF_13022008gærkvöldi eftir að grænlenski togarinn Polar Nanoq hafði samband við Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir aðstoð þyrlunnar. Um borð væri 48 ára færeyskur maður, grunur lék á að hann væri með innvortis blæðingar. Þyrlulæknir ræddi við skipstjóra og talið var nauðsynlegt að sækja manninn. Polar Nanoq snéri samstundis við á hélt á fullri ferð til móts við þyrluna en togarinn var staðsettur um 188 sjómílur SV af Reykjanesi.

Norska varðskipið Harstad kemur til landsins í boði Landhelgisgæslunnar

- koma skipsins liður í góðu og árangursríku samstarfi Landhelgisgæslu Íslands og norsku strandgæslunnar

Norska varðskipið Harstad kom til Reykjavíkur í morgKV_Harstadun en skipið er hér á landi í boði Landhelgisgæslunnar. Skipið er nánast systurskip íslenska varðskipsins Þórs sem er í smíðum í Chile. Harstad liggur við Ægisgarð til morguns en hér fara fram áhafnarskipti. Á fimmtudag og föstudag verður varðskipið við æfingar með varðskipi og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Harstad kemur  síðan inn til Reykjavíkur aftur um sjómannadagshelgina og verður til sýnis fyrir almenning á sjómannadaginn 7. júní frá kl. 13:30-17:00 þar sem það mun liggja við Miðbakkann í Reykjavík. Harstad heldur úr höfn á mánudag.  Um glæsilegt skip er að ræða sem gaman er að skoða og er almenningur hvattur til að nýta sér þetta einstaka tækifæri.

Þyrluútkall í farþegaskipið FUNCHAL

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF var kölluð út kl. 02:35 í nótt TF-LIF-140604þegar portúgalska farþegaskipið FUNCHAL hafði samband við Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og óskaði eftir að 67 ára gömul veik kona yrði sótt um borð í skipið. Að mati þyrlulæknis var talið nauðsynlegt að sækja konuna. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF fór frá Reykjavik kl. 04:06 og var komin að skipinu kl. 05:25 um 85 sjómílur SA af Vestmannaeyjum.
Síða 2 af 2