Fréttasafn

Stefna okkar er að halda almenningi, stjórnvöldum og starfsfólki vel upplýstu um starfsemina og stuðla þannig að jákvæðri og sterkri ímynd Landhelgisgæslunnar í þjóðfélaginu.


Fréttayfirlit


Rafrænt tilkynningakerfi fyrir skip, Safe Sea Net, tekið upp - 29.4.2008

SafeSeaNet

Þriðjudagur 29.apríl 2008

Landhelgisgæslan/Vaktstöð siglinga hefur nú tekið í notkun nýtt rafrænt tilkynningakerfi fyrir skip sem koma til hafnar hér á landi og um flutning hættulegs farms.

Siglingastofnun og Landhelgisgæslan hafa unnið að gerð kerfisins undanfarin tvö ár en kerfið er smíðað af Samsýn ehf. Innleiðing kerfisins byggir á lögum um Vaktstöð siglinga og tilskipun Evrópusambandsins 2002/59/EB. Öll ríki Evrópusambandsins, sem liggja að sjó eða reka kaupskip undir eigin fána, auk Íslands og Noregs vinna að eða hafa komið sér upp slíku kerfi. Kerfi allra landanna eru tengd miðlægum tilvísunargrunni þar sem hægt er að sækja upplýsingar um farm og ferðir skipa milli landa. Kerfið hefur verið nefnt Safe Sea Net.


Skipstjórnendur, útgerðaraðilar og aðrir sem þurfa að senda inn tilkynningar um skipaferðir eru hvattir til að kynna sér kerfið. Ennfremur veitir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar/Vaktstöð siglinga aðstoð við innskráningu, sé þess óskað.

Norskt línuveiðiskip staðið að meintum ólöglegum veiðum undan Suðausturlandi - 28.4.2008

Mánudagur 28. apríl 2008

Í eftirlitsflugi í gærkvöldi stóð þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, norska línuveiðiskipið Gayser Senior að meintum ólöglegum veiðum inni á lokuðu svæði í Skaftárdjúpi undan Suðausturlandi. Svæðið er lokað með reglugerð um friðun hrygningarþorsks og skarkola á vetrarvertíð og hefur verið lokað á þessum tíma undanfarin ár. Stýrimaður þyrlunnar seig um borð í skipið og rannsakaði meint brot, fór yfir afladagbækur og önnur skipsskjöl. Að þeirri athugun lokinni var ákveðið að vísa skipinu til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem mál hans verður tekið til nánari rannsóknar af lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum.

Gamlir neyðarsendar um borð í skipum. Leit að neyðarsendi - hafði verið gangsettur og hengdur utan á sorpgám. - 17.4.2008

Neydarsendar
Fimmtudagur 17.apríl 2008

Töluvert er er enn af gömlum neyðarsendum um borð í skipum og bátum á Íslandi. Um er að ræða senda sem senda út á tíðnum 121,5 og 243 MHz í alþjóðlega COSPAS-SARSAT gervihnattakerfinu. Eins eru dæmi þess að sendar af þessu tagi liggi í reiðileysi þar sem óviðkomandi aðilar eða jafnvel börn og unglingar geta komist að þeim og sett neyðarsendinn af stað í gáleysi eða misskildum leik.

Nýir sendar hafa verið teknir í notkun sem senda út á 406 MHz og eru jafnvel með GPS staðsetningarbúnað og geta því sent út nákvæma staðsetningu auk þess sem þeir senda út auðkenni skipa. Eftir 1. febrúar 2009 verður einungis unnið úr boðum á 406 MHz tíðni.

Í gær, miðvikudaginn 16.apríl, bárust Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá neyðarsendi við Snæfellsnes. Reynt var að staðsetja boðin eins nákvæmlega og kostur var, en illa gekk að staðsetja sendinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn, lögregla var í viðbragðsstöðu, Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ fór til leitar og skip og flugvélar á svæðinu svipuðust um. Stöðvar á Norður-Atlantshafssvæðinu, sem námu boðin voru einnig í viðbragðsstöðu. Neyðarsendirinn fannst svo eftir um 2 klukkustunda leit, bundinn utan á sorpgám, á sorphaugum á Rifi á Snæfellsnesi. Ljóst er að sendirinn hefur verið gangsettur af ásettu ráði, í leik eða óvitaskap.

Mál af þessu tagi eru grafalvarleg enda er með þessu verið að sóa verðmætum tíma viðbragðsaðila og misnota búnað til leitar og björgunar.

Tveir Gæslumenn í ferð með danska varðskipinu Vædderen - 11.4.2008

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_1
Föstudagur 11.apríl 2008

Dagana 17. febrúar til 27. mars síðastliðinn fóru þeir Vilhjálmur Óli Valsson stýrimaður í flugdeild og Rögnvaldur Kristinn Úlfarsson, háseti á varðskipinu Tý, í ferð með danska varðskipinu Vædderen, en vera þeirra um borð er hluti af auknu samstarfi Landhelgisgæslunnar og dönsku strandgæslunnar.

Kjölur lagður að nýju varðskipi - smíði gengur vel - 8.4.2008

Skipasmidi_Asmar_april2008_skip
Þriðjudagur 8.apríl 2008

Vinna við smíði nýs fjölnota varðskips fyrir Landhelgisgæsluna gengur vel í ASMAR skipasmíðastöðinni í Talcahuano í Chile. Nýverið var kjölur lagður að skipinu við hátíðlega athöfn í skipasmíðastöðinni. Viðstaddir voru Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar ásamt starfsfólki. Fundað var vegna smíði skipsins þar sem farið var yfir gang og skipulag smíðarinnar.

Áætlað er að sjósetning verði í lok þess árs og að skipið verði afhent fyrir árslok 2009.

Grunnskólabörn á Þingeyri heimsækja varðskipið Tý - 7.4.2008

Grunnskborn_Thingeyri_heims_Vs_Ty_3
Mánudagur 7.apríl 2008

Í síðastliðinni viku heimsóttu grunnskólabörn á Þingeyri, ásamt kennurum sínum, varðskipið Tý. Alls voru gestirnir um 60. Varðskipsmenn sýndu gestunum skipið og fræddu þau um störf Landhelgisgæslunnar. Heimsóknin tókst vel í alla staði og var unga fólkið afar áhugasamt um varðskipin, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Nýtt sjókort af hafinu umhverfis Ísland - 2.4.2008

Kort_21_komid_ut_mars2008
Miðvikudagur 2. apríl 2008

Út er komið hjá Sjómælingum Íslands, Sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands, nýtt sjókort yfir hafið umhverfis Ísland. Kortið, sem er í mælikvarðanum 1:1 000 000, heitir Ísland og er númer 21. Þetta kort leysir af hólmi tvö eldri kort, kort númer 25 Ísland (Austurhluti) og 26 Ísland (Vesturhluti). Mikill fengur er að nýja kortinu sem gagnast mun bæði sjófarendum og öðrum, þar sem á þessu korti má líta íslensku landhelgina á einu kortblaði.

Sjómælingar Íslands og breska sjómælingastofnunin, United Kingdom Hydrographic Office, hafa með sér samstarfssamning og því leysir þetta nýja kort einnig af hólmi breskt sjókort, nr. 565, sem gefið var út í London 27. júní 1941.

Einnig er komin út ný útgáfa af korti númer 41, Vestfirðir og kemur það í stað eldri útgáfu frá 1983. Kortið er í mælikvarðanum 1:300 000. Nýjar mælingar búa að baki hlutum kortsins, sérstaklega á Breiðafirði og við Snæfellsnes.

Varðskip aðstoðar bát við að fjarlægja drauganet úr sjó - 1.4.2008

Drauganet_hreinsad_ur_sjo
Þriðjudagur 1. apríl 2008

Á dögunum aðstoðaði varðskip bát við að hirða upp drauganet úr sjó. Drauganet eru veiðarfæri eða hlutar þeirra kölluð, sem liggja eða reka í sjó, gagnslaus.

Drauganet þessi voru á fjölfarinni siglingaleið við Suðvesturland og ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem sjófarendum og lífríkinu stafar af slíkum netum, svo ekki sé minnst á sóðaskapinn. Í seinni tíð hefur minna borið á drauganetum hér við land en þó enn berist fréttir af netum eða hlutum þeirra á reki.

Bannað er að henda í sjóinn veiðarfærum, netastykkjum svo og öðrum hlutum úr veiðarfærum. Týni skip veiðarfærum í sjó ber skipstjóra að reyna að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það til Landhelgisgæslunnar og skýra frá staðsetningu veiðarfærisins, eins nákvæmlega og unnt er og hvenær það týndist. Sjófarendur eru hvattir til að gæta vel að veiðarfærum sínum, vegna öryggis og ekki síður lífríkis sjávar.