Þrjátíu fulltrúar af þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins
heimsóttu nýverið Landhelgisgæsluna og kynntu sér starfsemi stjórnstöðvar, samhæfingarstöðvar auk nýjustu korta og mælinga sjómælingasviðs. Var að því loknu haldið í flugskýli LHG þar sem hópurinn fékk kynningu á þyrlum, flugvél og tölfræði sem tengist útköllum flugdeildar sl. 15 ár. Einnig var sprengju- og köfunardeild með búnað sinn til sýnis fyrir gestina.
Varðstjórar og aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem tengjast stjórnstöð hennar sátu námskeið hjá Flugstoðum í vikunni þar sem kynntir voru verkferlar sem viðhafðir eru gagnvart loftförum sem lent hafa í ýmsum tegundum flugatvika. Sum þessara flugatvika eru tilkynnt stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þar sem þau eiga sér stað yfir sjó og þarfnast mismunandi viðbúnaðar Landhelgisgæslunnar.
Fulltrúar frá Landhelgisgæslunni, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Almannavörnum og Neyðarlínunni settu í dag upp rauð nef en markmiðið er að vekja athygli á degi rauða nefsins, söfnunarátaki til styrktar verkefnum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) um allan heim.
Áhöfn Ásgríms S. Björnssonar, björgunarskips
Slysavarnarfélagsins Landsbjargar heimsótti í gærkvöldi Flugdeild Landhelgisgæslunnar. Magnús Örn Einarsson sigmaður /stýrimaður og Helgi Rafnsson spilmaður/flugvirki tóku á móti hópnum og útskýrðu hvað gerist þegar þyrlan fer í útkall og hlutverk stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar í þeim.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í dag beiðni um að þyrla Landhelgisgæslunnar yrði kölluð út vegna skipverja með botnlangakast um borð í flutningaskipi sem statt er suður af landinu á siglingu yfir Atlantshafið. Skipið siglir nú á fullri ferð í átt til Vestmannaeyja þar sem það mun mæta þyrlunni í nótt þegar skipið á eftir um 30 sjómílur til lands. Var ákveðið að björgunin yrði framkvæmd með þessum hætti þar sem skipverjinn var ekki metinn í lífshættu.
Landhelgisgæslunni heyrði kl. 12:45 viðskipti á rás 16 þar sem kominn var upp eldur í vélarrúmi fiskibátsins Guðrúnar sem staddur var um 1 sjómílu suðvestur af Hafnabergi, mitt á milli Hafna og Reykjanestáar. Skipverjinn um borð í Guðrúnu hóf samstundis að slökkva eldinn með handslökkvitæki, einnig var óskað aðstoðar fjölveiðiskipsins Faxa sem staddur var á staðnum. Varðskip Landhelgisgæslunnar hélt samstundis áleiðis. Var þetta önnur aðgerð Landhelgisgæslunnar í dag.
Søren Haslund, sendiherra Danmerkur kynnti sér í morgun starfsemi Landhelgisgæslunnar þegar hann ásamt eiginkonu sinni Karen Haslund og konsúl sendiráðsins, Lise Hafsteinsson kom í sína fyrstu heimsókn til Landhelgisgæslunnar en sendiherrann tók við stöðu sinni í septemberbyrjun. Helstu áherslur í starfsemi Landhelgisgæslunnar voru kynntar gestunum sem og mikið samstarf Landhelgisgæslunnar við danska flotann í gegn um tíðina.
Á ársfundi Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC) sem fór fram þann 9.-13. október í höfuðstöðvum nefndarinnar í London var staðfestur samningur strandríkja um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og kolmunnastofninum sem gerður var í október síðastliðnum. Einnig var gengið frá samningi um veiðar á karfa í Síldarsmugunni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var um helgina við gæslu á Norðurmiðum þar sem flogin var grunnslóð frá Hrútafirði til Axarfjarðar. Einnig fór þyrlan í rjúpnaveiðieftirlit með lögreglunni á Norðausturlandi. Haft var auga með utanvegaakstri en einnig var þyrlunni lent þar sem veiðimenn voru á ferð og athugun gerð á leyfum þeirra og byssum.
Olíuskipið URALS STAR
er nú á siglingu undan Suðausturlandi með 106 þúsund tonn af hráolíu innanborðs. Skipið stefnir 12 mílur suður af Dyrhólaey en skipið er á leið frá Murmansk til austurstrandar Bandaríkjanna með olíu til hreinsunar. Skipið tilkynnti ekki siglingu sína innan hafsvæðisins eins og lög og reglur gera ráð fyrir og hafði því Landhelgisgæslan samband við skipið kl. 15:10 í dag. Var skipið þá um 22 sjómílur SA-af Hrollaugseyjum.
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa undanfarið setið skyndihjálparnámskeið í umsjón Marvins Ingólfssonar, sprengjusérfræðings hjá Landhelgisgæslunni, kafara og sjúkraflutningamanns með meiru. Marvin hlaut í haust réttindi til kennslu í skyndihjálp hjá Rauða Krossi Íslands og mun framvegis annast námskeiðin sem eru mismunandi samsett eftir störfum og deildum innan Landhelgisgæslunnar. Námskeiðunum lýkur með prófi og viðurkenningarskjali sem viðurkennt er af Rauða krossi Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Æfingaflug þyrlu Landhelgisgæslunnar var um helgina nýtt til eftirlits ásamt lögreglunni á Selfossi. Lent var við Botnssúlur þar sem afskipti voru höfð af tveimur rjúpnaskyttum sem grunaðir voru um að hafa veitt á landsvæði þjóðgarðsins en þar eru veiðar stranglega bannaðar. Afli þeirra var gerður upptækur svo og veiðarfæri.
Í vikunni
fengu stýrimenn og flugvirkjar hjá Landhelgisgæslunni afhent skýrteini vegna Dash- 8 þjálfunar á eftirlitsflugvélina Sif. Þjálfunin hefur staðið yfir frá því í ágúst og voru skírteinin afhent af
Earl Wilson, kennara frá fyrirtækinu L3 í Texas og var hann að vonum glaður með árangur síðastliðinna þriggja mánaða.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 18:58 beiðni frá Neyðarlínunni um þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna alvarlegs bílslyss í Langadal í Húnavatnssýslu. Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið kl. 19:16 og lenti á slysstað kl. 20:10. Tveir slasaðir voru fluttir yfir í þyrluna sem fór að nýju í loftið kl. 20:30 og áætlar að lenda við Borgarspítalann kl. 21:20.
Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var í gær kölluð út til að kanna dufl sem barst á land í Skarðsfjöru við Skaftárdjúp. Við nánari athugun reyndist um að ræða rússneskt hlerunardufl en einnig fannst í fjörunni rússnesk siglingabauja ásamt hita- og seltumælir úr kafbát sem notaður er til að mæla seltu- og hljóðhraða í sjónum.
Breytingar eru hafnar á fyrirkomulagi vöktunar skipa og báta í fjareftirliti vaktstöðvar siglinga/stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Gert er ráð fyrir að eftir 1. janúar 2011 verði núverandi STK-kerfi (Racal-kerfi) alfarið lagt niður. STK kerfið er smíðað fyrir Ísland og hvergi í notkun annarsstaðar. Þess í stað verður tekin upp ferilvöktun með (AIS - Automatic Identification System) sem er búnaður með sambærilega virkni og gamla kerfið.