Fréttasafn

Stefna okkar er að halda almenningi, stjórnvöldum og starfsfólki vel upplýstu um starfsemina og stuðla þannig að jákvæðri og sterkri ímynd Landhelgisgæslunnar í þjóðfélaginu.


Fréttayfirlit


Aðgerðir LHG vegna samdráttar í rekstri útskýrðar í bréfi til starfsmanna - 27.2.2009

Gaeslan2

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fengu í gærdag bréf frá Georg Kr. Lárussyni forstjóra þar sem útskýrðar eru þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna samdráttar í rekstri stofnunarinnar.

Segir Georg í bréfinu að frá sl.hausti hafi verið leitað allra leiða til að hagræða í rekstri Landhelgisgæslunnar. Í janúar sl. var tilkynnt um fyrirhugaðar uppsagnir 20-30 starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Í framhaldinu var leitað eftir samráði við stéttarfélög starfsmanna skv. lögum um hópuppsagnir. Í lok janúar var uppsögnum slegið á frest meðan leitað var annarra leiða til að komast hjá uppsögnum og samráðsferli með stéttarfélögum starfsmanna gefinn hæfilegur tími. Því samráðsferli er nú formlega lokið.

TF-EIR kölluð út vegna fjórhjólaslyss - 27.2.2009

TF-EIR
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-EIR var kölluð út um kl. 18:20 á fimmtudagskvöld þar sem karlmaður slasaðist og missti meðvitund í fjórhjólaslysi í Skorradal.

Erfitt var að komast að slysstaðnum landleiðina og var því óskað eftir aðstoð þyrlunnar, sem sótti manninn og lenti með hann við Landspítalann í Fossvogi á áttunda tímanum í gærkvöldi.

Tekinn við meintar ólöglegar veiðar - 26.2.2009

SYN_15_juni_2005
Rétt fyrir klukkan 13:00 á fimmtudag stóð Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, línubátinn Háborgu HU 10 að meintum ólöglegum veiðum innan skyndilokunarhólfs á Húnaflóa. Þeim tilmælum var beint til skipstjóra að klára að draga inn veiðarfæri og halda að því loknu til hafnar þar sem málið verður rannsakað af lögregluyfirvöldum.

Fjarskipti tilkynningaskyldunnar á VHF færast á samræmda rás nr. 9 - 26.2.2009

Vaktstöð siglinga - stjórnstöð Landhelgisgæslunnar mun frá 1. apríl nk. afgreiða fjarskipti tilkynningaskyldunnar á VHF frá öllum svæðum á samræmdri rás nr. 9.

Fjarskiptabúnaður stöðvarinnar hefur nú allur verið endurnýjaður. Sjófarendur eru eftir sem áður minntir á hlustvörslu á rás 16 - sem neyðar- og útkallsrás. Frá 1. mars verður hægt að nota rás 9 en gert er ráð fyrir eins mánaðar aðlögunartíma. Tekur breytingin að fullu gildi þann 1. apríl nk.

BBC World fjallar um horfur á norðurslóðum - 24.2.2009

BBC_sigid

BBC World sýndi mánudaginn 23. febrúar frétt og lengri þátt sem unninn var hér á landi um framtíðarhorfur á norðurslóðum. Efnið var unnið á meðan NATO ráðstefnan „Security Prospects in the High North“ stóð yfir í lok janúar.

Hér má sjá fréttina http://news.bbc.co.uk/2/hi/europe/7905132.stm

Brian Hanrahan og Simon Smith frá BBC heimsóttu Landhelgisgæsluna og fengu kynningu á starfsemi stjórnstöðvar og mikilvægi þeirrar eftirlits- og öryggisstarfsemi sem þar er sameinuð.

Æfing þyrluáhafna LHG í snjóflóðaleit - 23.2.2009

Dagana 21.-23. febrúar fór fram æfing stýrimanna, flugvirkja og lækna á þyrlum Landhelgisgæslunnar með nokkrum af undanförum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar (SL).

Æfð var notkun snjóflóðáýlis, snjóflóðaleitarstanga, ísaxabremsa, notkun mannbrodda og sitthvað fleira tengt fjallamennsku.

Þyrlur LHG sækja alvarlega slasaða í Þykkvabæ - 20.2.2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 14:07 beiðni frá Fjarskiptamiðstöð Lögreglunnar um að þyrla Landhelgisgæslunnar yrði kölluð út vegna sprengingar sem varð í kartöfluverksmiðju í Þykkvabæ. Staðfest var að tveir menn væru alvarlega slasaðir.

Þegar útkallið barst var TF-EIR við æfingar á ytri höfninni. Kom þyrlan strax inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, sótti þyrlulækni og fór í loftið að nýju kl. 14:29. Var hún var komin á slysstað kl. 14:55.

Skipt um búnað á Hellisheiði eystri - 20.2.2009

Hellisheidi1
Í vikunni var gerður út leiðangur á Hellisheiði eystri til endurbóta á biluðum fjarskiptabúnaði sem Vaktstöð siglinga notar til að taka á móti skeytum frá skipum og bátum á norð-austurmiðum. Tókst leiðangurinn mjög vel en eins og oft áður þegar mikið liggur við, var gott að geta leitað til björgunarsveitanna.

Horfur á norðurslóðum ræddar á fróðlegum fundi SVS og Varðbergs - 18.2.2009

Effersoe_GeoArctic

Auðlindir og gæsla á Norður Atlantshafi, vaxandi skipaferðir, auðlindanýting auk flutninga á sumrin milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins voru á meðal þess sem rætt var í málstofu Samtaka um vestrænnar samvinnu (SVS) og Varðbergs í gær.

Frummælendur voru Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra og alþm., Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og alþm., Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands og Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun. Erindi þeirra má sjá hér á síðunni.

Sameiginleg æfing LHG og slökkviliðs Fjarðarbyggðar - 16.2.2009

Fyrir skömmu var haldin á Reyðarfirði, sameiginleg eldvarnar- og reykköfunaræfing Landhelgisgæslunnar og slökkviliðs Fjarðarbyggðar. Einnig tóku þátt tveir leiðbeinendur frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins.

Æfingin fór fram í varðskipi LHG, var hún tvískipt og tók um níu klukkustundir.

Ingunnarskóli heimsækir varðskip - 16.2.2009

Nýverið fékk varðskipið ÆGIR heimsókn tíu ára barna úr Ingunnarskóla í Grafarvogi. Fór áhöfn varðskipsins með hópana um skipið og sýndu það helsta um borð. Má þar nefna ýmiskonar búnað s.s. hinar frægu togvíraklippur, farið var upp í brú, í forsetasvítuna, messann, setustofur áhafnar, vélarrúm og fleira.

Reglugerð væntanleg um losun kjölfestuvatns - 13.2.2009

Stjórnstöð LHG fékk í gær fyrirspurn frá olíuskipinu British Tranquillity, sem var á siglingu frá New York til Reykjavíkur, hvort skipið megi dæla út ballest eða kjölfestuvatni hér við land.

Haft var samband við Umhverfisstofnun og að því loknu var skipið beðið um að skipta um ballest áður en það kom inn í efnahagslögsöguna. Varð skipstjóri British Tranquility við því. Þegar skipið kemur til hafnar í Reykjavík mun Siglingastofnun fara um borð í skipið og sannreyna að skipið hafi farið eftir leiðbeiningum vaktstjóra í stjórnstöð LHG.

Undanfaraæfing vð Helgafell - 12.2.2009

lhg_undanfarar_03
Fjallaæfing áhafnar TF-EIR, með nokkrum af undanförum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar fór fram síðastliðinn laugardag við Helgafell. Æfingin fer fram einu sinni á ári og er samkvæmt samkomulagi við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu.

Heimsókn til LHG í tilefni 112 dagsins - 11.2.2009

Í dag er hinn árlegi 112 dagur haldinn hátíðlegur en að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á.

Tveir bekkir níu ára bekkir úr Háteigsskóla, 4-SÓ OG 4-IRB komu í heimsókn til Landhelgisgæslunnar og kynntu sér starfsemi varðskipanna og flugdeildar.

112 dagurinn 11. febrúar - 10.2.2009

Logo_112dagurinn2009
Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilarnir áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Með einu símtali í 112 (einn, einn, tveir) er unnt að virkja á augabragði lögreglu, slökkvilið, almannavarnir, Landhelgisgæsluna, sjúkraflutninga, lækna og hjúkrunarfólk, hjálparlið Rauða krossins og björgunarsveitanna og barnaverndarnefndir.

Æfingar í Færeyjum og Reykjavík - 9.2.2009

Sameiginleg leitar- og björgunaræfing Íslendinga, Færeyinga og Dana fór nýverið fram við Færeyjar. Þátttakendur í æfingunni voru stjórnstöð leitar- og björgunar í Færeyjum - MRCC Tórshavn, danska flotastjórnin, danska varðskipið TRITON, færeysku varðskipin BRIMILl og TJALDRIÐ, færeysku björgunarbátarnir ZISKA og LIV og að lokum v/s TÝR.
Síða 1 af 2