Fréttasafn

Stefna okkar er að halda almenningi, stjórnvöldum og starfsfólki vel upplýstu um starfsemina og stuðla þannig að jákvæðri og sterkri ímynd Landhelgisgæslunnar í þjóðfélaginu.


Fréttayfirlit


Auðvelt er að villast á neyðarblysum og almennum flugeldum. - 30.12.2008

flugeldar_2
Nú rennur árið 2008 sitt skeið og hið hefðbundna tímabil skoteldasölu nálgast hámarkið. Flugeldasalan er stærsta, og um leið mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita en kostnaður við rekstur björgunarsveitar er mikill þrátt fyrir að allt starf sé unnið í sjálfboðavinnu. Samkvæmt reglugerð um skotelda nr. 952/2003 er leyfilegt að selja og skjóta upp flugeldum frá 28. desember - 6. janúar ár hvert og vildu sjálfsagt margir hverjir skjóta upp við mun fleiri tækifæri.

Ekki gera sér allir grein fyrir að auðvelt er að villast á neyðarblysum og almennum flugeldum. Neyðarblys eru mjög mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur og utan hins hefðbundna flugeldatímabils þarf að sækja um sérstakt leyfi til að skjóta upp skoteldum.

Fjórtán ár frá björgun átta mánaða gamals barns - 29.12.2008

Fyrir fjórtán árum síðan, eða þann 29. desember 1994 björguðu þyrlur Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins átta mánaða barni auk áhafnar hollenska flutningaskipsins Henrik B. sem var staðsett um 100 mílur út af Vestmannaeyjum. Er þetta í fyrsta og eina skiptið sem sigmaður Landhelgisgæslunnar hefur sótt svo ungt barn um borð í skip. Var barnið sett inn í búning sigmannsins og hann því næst hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.  

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár - 23.12.2008

Jol_skip
Landhelgisgæsla Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Stefnt að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála - 23.12.2008

Eir björgunaræfing með Ægi sumarið 2007
Í fréttatilkynningu frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 22. desember kemur fram að ríkisstjórnin féllst hinn 16. desember sl. á tillögu Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, um að stefnt yrði að samþættingu verkefna og hagræðingu á starfssviði öryggis- og siglingamála. Var ráðuneytinu falið að hafa forgöngu um viðræður í því augnamiði að sameina krafta ríkisstofnana, sem tengjast siglingum, sjósókn, öryggi, löggæslu, eftirliti, sjúkra- og neyðarflugi sem og sjómælingum og rannsóknum í hafinu. Markmiðið er að auka hagræði og skilvirkni í rekstri þeirra stofnana sem hér um ræðir.

Vefurinn island.is veitir upplýsingar um efnahagsvandann - 23.12.2008

Stjórnvöld hafa sett á fót upplýsingamiðstöð um efnahagsvandann en unnið var að undirbúningi hennar innan forsætis- og utanríkisráðuneytisins en fleiri ráðuneyti koma að efnisöflun og símaþjónustu. Markmið hennar er að einfalda aðgengi almennings að upplýsingum um hvað eina sem viðvíkur efnahagsástandinu.

Mannréttindadómstóll Evrópu vísar frá kæru gegn íslenska ríkinu - 22.12.2008

Í fréttatilkynningu á vef Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá kærumáli Björns Guðna Guðjónssonar gegn íslenska ríkinu um bann við grásleppuveiðum í netlögum. Dómstóllinn lýsti kæruna ótæka þar sem hún þótti ,,augljóslega illa grunduð" (manifestly ill-founded), sbr. 3. mgr. 35. gr. mannréttindasáttmálans.

Gæslunám verði innan Lögregluskóla ríkisins - 22.12.2008

Í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneyti kemur fram að nefnd sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 20. ágúst 2007 til að gera tillögur um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla hefur skilað skýrslu til ráðherra. Þar er gert ráð fyrir að starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, sem á þurfa að halda starfa sinna vegna, fái þar menntun og þjálfun í lögreglufræðum. Námið myndi skiptast í lögreglunám, fangavarðanám og gæslunám.

TF-LIF sækir örmagna göngumann á Skarðsheiði - 21.12.2008

TF_LIF_Odd_Stefan
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF sótti í gærkvöldi mann á Skarðsheiði eftir að hann fannst af björgunarsveitum. Var maðurinn örmagna og ekki talinn fær um gang niður af heiðinni. Að sögn þyrluáhafnar gekk björgunin mjög vel, undirbúningur og móttaka björgunarsveitarmanna var að þeirra sögn til fyrirmyndar. Lent var á Reykjavíkurflugvelli kl. 22:50 þar sem sjúkrabifreið beið og flutti manninn á sjúkrahús.

TF-EIR flýgur með tæknifólk í Eldey - 19.12.2008

Eldey_EIR_med_bunad
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR ferjaði í vikunni tæknifólk út í Eldey til að klára fínstillingu myndavélar sem sett var upp í janúar. Til stóð að fara í verkefnið um sl. helgi en vegna veðurs var ferðinni frestað.

Gekk fínstilling vélarinnar ágætlega en meðan verið var við vinnu í eyjunni beið EIR við Reykjanesvirkjun.

Bráðaflokkunartöskur teknar í notkun - 18.12.2008

bradaflutntoskur
Dómsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið afhentu á miðvikudag bráðaflokkunartöskur til nota þegar slys ber að höndum. Um er að ræða nýtt kerfi til forgangsflokkunar sjúklinga á slysavettvangi og kemur það í stað eldra kerfis, sem í daglegu tali var kallað „almannavarnaspjöldin“.

Skip íslenskra aðila skera sig úr við notkun SafeSeaNet - 17.12.2008

Svo virðist sem skip á vegum íslenskra aðila á siglingu til íslenskra hafna skeri sig úr vegna lítillar þátttöku í Safe Sea Net-rafrænu tilkynningakerfi skipa (SSN) á vegum Evrópusambandsins. Þetta sýnir mánaðarleg skýrsla EMSA (European Maritime Safety Agency) en þar kemur fram að aðeins ellefu íslenskar skráningar komu fram í kerfinu í nóvember en samkvæmt tölum Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hefðu þær í raun átt að vera áttatíu og níu. Hlutfallslega eru þetta ekki nema rétt rúm 12%.  

Gáttaþefur á jólaballi LHG - 15.12.2008

Jolasongur_Joli_Sveppi
Hann var fjölmennur dansinn í kring um jólatréð á jólaballi starfsmannafélags Landhelgisgæslunnar sem var haldið í flugskýli LHG á laugardag. Helga Möller og Magnús Kjartansson sáu um tónlistina en hápunktur gleðinnar var eflaust áhrifamikil koma Gáttaþefs sem hafði Sveppa sér til aðstoðar. Þeir komu á jólaballið með þyrlu Norðurflugs sem flogið var af einum þyrluflugmanna LHG.

Áætlun um smíði varðskips helst óbreytt - 12.12.2008

vardskip_framan_stor
Í gær voru kynntar tillögur ríkisstjórnarinnar um niðurskurð fjárlaga næsta árs. Skv. Morgunblaðinu í dag kom fram á fundinum að til stæði að fresta framkvæmdum vegna nýrrar flugvélar og varðskips LHG. Spurður um þetta sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hins vegar að áætlun um smíði varðskipsins haldist þó að greiðslur kunni að færast til.

Samningur undirritaður um framkvæmd skyndiskoðana - 12.12.2008

Vs_Aegir_2007_G_St_Vald
Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG og Hermann Guðjónsson, siglingamálastjóri skrifuðu í morgun undir samstarfssamning í húsakynnum Siglingastofnunar í Kópavogi.

Cospas-Sarsat gervihnattakerfið hættir þann 1. febrúar að vinna úr merkjum neyðarsenda á 121,5 og 243 MHz - 10.12.2008

Neydarsendar
Sá þáttur sem vegur einna þyngst, þegar kemur að öryggi íslenskra sjófarenda, flugmanna og ferðamanna, er að um borð í bátum þeirra, skipum og flugförum séu neyðarsendar sem bera boð tafarlaust til Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og sýna þá helst GPS staðsetningu þeirra sem lenda í neyð eða vanda. Einnig er mikilvægt fyrir ferðafólk, svo sem veiðimenn sem eru oft á tíðum á svæðum sem eru utan alfaraleiða, að hafa GPS tæki í fórum sínum, eins konar neyðarhnapp sem virkar hvar sem er í heiminum.

Því vill Landhelgisgæslan vekja athygli á því að þann 1. febrúar 2009 mun alþjóðlega Cospas-Sarsat gervihnattakerfið hætta að vinna úr merkjum neyðarsenda á 121,5 og 243 MHz og mun eftir þann tíma einungis vinna úr merkjum neyðarsenda sem eru á tíðninni 406 MHz.

Slökkviliðsmenn af Keflavíkurflugvelli í heimsókn - 8.12.2008

BIKF_slokkvhopur
Landhelgisgæslan fékk á föstudag heimsókn C-deildar Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli en áhafnir varðskipa LHG og stýrimenn flugdeildar voru hjá þeim við þjálfun í nóvember. Heimsótt var Stjórnstöð LHG, Samhæfingarmiðstöð, Flugdeild LHG og varðskipið Týr, sem var loka viðkomustaður en þar tók Sigurður Steinar skipherra ásamt áhöfn vel á móti hópnum.
Síða 1 af 2